Fótbolti

Leikur Þór/KA á móti Söru Björk og félögum sýndur í opinni dagskrá og á Vísi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar þýska meistaratitlinum 2018 með liðsfélögum sínum Joelle Wedemeyer, Katharinu Baunach og Ewu Pajor.
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar þýska meistaratitlinum 2018 með liðsfélögum sínum Joelle Wedemeyer, Katharinu Baunach og Ewu Pajor. Vísir/Getty
Það stór dagur á Akureyri í dag þegar Þór/KA tekur á móti Þýskalandsmeisturum VfL Wolfsburg á Þórsvellinum í Meistaradeild kvenna í fótbolta.

Stöð 2 Sport verður á staðnum og mun sýna leikinn beint. Leikurinn verður sýndur í opinni dagskrá og verður einnig sýndur beint hér á Vísi.

Leikurinn hefst klukkan 16.30 en útsendingin hefst klukkan 16.20.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, leikur með liði VfL Wolfsburg en það gerir líka danska landsliðsinskonan Pernille Harder sem var á dögunum kosin besti leikmaður síðasta tímabils af UEFA.

Það eru fleiri stórstjörnur úr kvennafótboltanum í gríðarsterku liði VfL Wolfsburg eins og sænski landsliðsfyrirliðinn Nilla Fischer, þýski landsliðsframherjinn Alexandra Popp og norski stjörnuleikmaðurinn Caroline Graham Hansen.

Þór/KA varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili og komst í útsláttarkeppni Meistarardeildarinnar með því að ná bestum árangri af liðunum í öðru sæti í undanriðlunum.

Þór/KA tapaði ekki leik í sínum riðli og fékk heldur ekki á sig mark. Markatalan í þremur leikjum var 5-0.

VfL Wolfsburg vann tvöfalt í Þýskalandi í fyrra en Sara Björk hefur bæði orðið þýskur meistari og þýskur bikarmeistari á fyrstu tveimur tímabilum sínum með liðinu.

VfL Wolfsburg fór alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra en þýska liðið vann hana síðast vorið 2014.

Það bíður Þór/KA mjög erfitt verkefni en í 32 liða úrslitum í fyrra þá sló Wolfsburg út spænska félagið Atlético Madrid samanlagt 15-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×