Fótbolti

Ekki gott að vera argentínskur þjálfari á þessu HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jorge Sampaoli í leiknum á móti Íslandi.
Jorge Sampaoli í leiknum á móti Íslandi. Vísir/Getty
Argentínski þjálfarinn Jorge Sampaoli var afar pirraður og fúll yfir úrslitunum á móti Íslandi í fyrsta leik Argentínumanna á HM í Rússlandi en það hefur gengið enn verr hjá löndum hans.

Í raun er staðan nú svo að Jorge Sampaoli er sá argentínski þjálfari sem hefur náð bestum árangri á HM til þessa.

Jafntefli á móti Íslandi er kannski ekki svo slæmt þegar lið hinna argentínsku þjálfaranna standa uppi stigalausir.





Hinir fjórir argentínsku þjálfararnir í þessari heimsmeistarakeppni hafa nefnilega tapað öllum leikjum sínum þar af hefur Héctor Cúper hjá Egyptalandi tapað tveimur leikjum sem þýðir að egypska landsliðið er svo gott sem úr leik.

Juan Antonio Pizzi hjá Sádí Arabíu, Ricardo Gareca hjá Perú og José Pékerman hjá Kólumbíu hafa líka tapað sínum leikjum á HM. Pizzi er með spænskt ríkisfang en hann er fæddur í Argentínu.

Við erum að tala um fimm töp í sex leikjum og markatala þessara fimm argentínsku þjálfara á HM til þessa er -10, lið þeirra hafa skorað aðeins 3 mörk en fengið á sig heil 13 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×