Fótbolti

Þrúgaðir af spennu á sama stað fyrir tveimur árum

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Hannes Þór Halldórsson og strákarnir okkar vita hvað þarf að gera.
Hannes Þór Halldórsson og strákarnir okkar vita hvað þarf að gera. vísir/vilhelm
Íslenska landsliðið í fótbolta mætir Nígeríu í annarri umferð riðlakeppni HM 2018 í Volgograd á föstudaginn en með sigri verður liðið í góðri stöðu fyrir lokaumferðina eftir jafnteflið gegn Argentínu.

Strákarnir okkar voru ekki í ósvipaðri stöðu á EM 2016 fyrir tveimur árum en þá gerðu þeir jafntefli við Portúgal, 1-1, og áttu svo fyrir höndum leik á móti Ungverjalandi sem flestir töldu fýsilegasta leikinn til að vinna.

Nígería er neðst á heimslistanum af liðunum í D-riðli og mögulegarnir góðir fyrir strákana okkar. Þeir verða þó að spila betur en á móti Ungverjum á EM 2016 þar sem að okkar menn náðu sér aldrei á strik.

Hannes Þór og strákarnir vilja sigur á föstudaginnVísir/Getty

Voru í góðri stöðu

„Það er ótrúlega margt sem er svipað með þessum tveimur mótum. Þetta er spegilmynd er í rauninni spegilmynd. Þessi leikur á móti Ungverjum verður virkilega mikivæg reynsla fyrir okkur,“ segir Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska liðsins.

„Þar vorum við komnir í góða stöðu eftir að ná í sterkt stig í fyrsta leik og sigur hefði komið okkur áfram. Munurinn er kannski að það er ekkert í höfn þó svo að við vinnum Nígeríu.“

Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir sigur á móti Nígeríu gætu okkar menn auðveldlega farið heim með tapi í lokaumferðinni. En, hvað ætla þeir að gera til að passa sig á að falla ekki í sömu gryfju og á EM og hvað gerðist þar?

Gylfi Þór Sigurðsson gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að lokaflautið gall í leik Íslands og Ungverjalands á EM 2016.vísir/vilhelm

Læra af þessu

„Þar vorum við svolítið þrúgaðir af spennu vitandi að ef við myndum vinna værum við komnir áfram. Þetta verður auðvitað risaskref fyrir okkur ef okkur tekst að sigra þann leik,“ segir Hannes.

„Það sem við lærðum mest á þessu er að fara inn í svona leik eftir sterkt stig sem skilar engu nema gera vel í næsta leik. Það mun hjálpa okkur að ná spennustiginu á réttan stað því á móti Ungverjunum vorum við svolítið passívir og enginn vildi gera mistök. Spennustigið var vanstillt og ég held að það eigi eftir að hjálpa okkur á föstudaginn að hafa gengið í gegnum þetta,“ segir Hannes Þór Halldórsson.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×