Fótbolti

De Rossi: Liverpool sparkaði bara hátt og langt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daniele De Rossi svekktur í gær.
Daniele De Rossi svekktur í gær. vísir/getty
Liverpool gerði lítið annað en að sparka boltanum bara hátt og langt í 5-2 sigrinum gegn Roma í gærkvöldi segir Daniele De Rossi, fyrirliði Rómverja.

Liverpool er komið með annan fótinn í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eftir þriggja marka sigur í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinn í gærkvöldi þar sem að Mohamed Salah skoraði tvö og lagði upp önnur tvö.

Rómverjar lentu 5-0 undir áður en að þeir svöruðu fyrir sig með tveimur mörkum og gerðu seinni leikinn að minnsta kosti áhugaverðan þó svo að möguleikar liðsins séu ekki miklir.

„Við eigum ekki að fá á okkur svona mörg mörk. Við spiluðum af krafti en okkur á miðjunni fannst við ekki taka mikinn þátt í leiknum þar sem að Liverpool-liðið sneiddi bara framhjá henni. Þeir voru bara í því að sparka langt fram völlinn, sama hvar þeir stóðu,“ sagði svekktur Rossi við Mediaset Premium eftir leikinn.

„Mér finnst munurinn á þessu tapi og gegn Barcelona að við vorum við óheppnir og ýmislegt féll ekki með okkur. Við byrjuðum vel fyrstu 20-25 mínúturnar en síðan lentum við í basli við að valda svæðin okkar og það er erfitt því framherjar Liverpool eru svo fljótir.“

Róma tapaði, 4-1, í fyrri leiknum í átta liða úrslitunum á móti Barcelona en vann seinni leikinn, 3-0. Liðið þarf sömu úrslit í seinni leiknum á móti Liverpool ætli það sér alla leið.

„Við verðum að minnast þess sem við gerðum í átta liða úrslitunum á móti Barcelona. Það sýndi okkur að allt er hægt og við höfum skyldum að gegna gagnvart okkur sjálfum, félaginu og allra helst fólkinu í Róm,“ sagði Daniele De Rossi.


Tengdar fréttir

Chamberlain alvarlega meiddur

Alex Oxlada-Chamberlain verður að öllum líkindum lengi frá vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik Liverpool gegn Roma í Meistaradeildinni í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×