Sport

„Iron Man“ vann Ólympíugull fyrir heimamenn í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yun Sung-Bin.
Yun Sung-Bin. Vísir/Getty
Suður-Kóreumenn unnu í nótt sitt annað gull á Ólympíuleikunum í Pyeongchang en það þurfti sannkallaða ofurhetju til að landa því.

Magasleðamaðurinn (skeleton) Yun Sung-Bin vann þá glæsilegan sigur en keppendur liggja þarna á maganum með höfuðið á undan og renna sér niður brautina flötum og stuttum sleðum.

Yun Sung-Bin var farinn að vekja heimsathygli áður en hann landaði gullinu og ekki síst fyrir hjálminn sinn sem hann lét hanna eins og hjálm ofurhetjunnar Iron Man.





Það er líka ástæða fyrir því að hann notar „Iron Man“ hjálminn. „Hann er uppáhalds karakterinn minn og þess vegna tileinka ég honum hjálminn minn,“ sagði Yun Sung-Bin og bætti við:

„Það er líka margt líkt með því hvernig menn renna sér á magasleðanum og hvernig Iron Man flýgur,“ sagði Yun Sung-Bin.  





Yun Sung-Bin kom í mark á samanlögðum tíma upp á þrjár mínútur 20 sekúndur og 55 sekúndubrot eftir ferðirnar fjórar. Hann var 1,63 sekúndum á undan Rússanum Nikita Tregubov.

Yun Sung-Bin var hinsvegar greinilega alveg búinn á því eftir keppnina. „Ég vil bara slökkva á símanum og fara heim og sofa,“ sagði Yun Sung-Bin en hvort hann komist upp með það er nú ólíklegt.

Yun Sung-Bin er orðin þjóðhetja í Suður-Kóreu og það vilja allir hitta hann og sjá hann á næstu dögum.







Sigur hans var sögulegur fyrir margar sakir. Þetta var fyrsti verðlaunapeningur Suður-Kóreu á Ólympíuleikum á magasleðanum og þetta var líka mesti yfirburðarsigurinn í þessari grein í sögu Ólympíuleikanna. Yun Sung-bin var þarna líka að vinna fyrstu Ólympíuverðlaunin á sleðum af manni sem er ekki frá Evrópu eða Norður-Ameríku.

Það er reyndar ekki enn ljóst hvort Marvel fyrirtækið hafi gefið leyfi fyrir notkun hjálmarins en menn þar á bæ ættu nú ekki að kvarta mikið yfir þessari ókeypis auglýsingu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×