Sport

Stal aftur senunni á setningarhátíð ÓL og mætti ber að ofan í frostinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tongamaðurinn Pita Taufatofua.
Tongamaðurinn Pita Taufatofua. Vísir/Getty
Tongamaðurinn Pita Taufatofua vakti mikla athygli á setningarhátíð vetrarólympíuleikanna í Pyeongchang í dag.  Hann leggur það í vana sinn að stela senunni þegar Ólympíuleikar eru settir.

Það muna margir eftir honum þegar hann kom inn á leikvanginn á setningarhátíð síðustu sumarólympíuleika í Ríó en þá mætti hann olíuborinn, ber að ofan og í strápilsi.

Pita Taufatofua tók þátt í tækvondó á ÓL í Ríó 2016 en honum tókst einnig að tryggja sér þátttökurétt á vetrarólympíuleikunum og það í skíðagöngu.

Það er frost og ískalt í Pyeongchang en það kom þó ekki í veg fyrir að Pita Taufatofua mætti aftur olíuborinn, ber að ofan og í strápilsi inn á setningarhátíðina.

Á meðan allir aðrir keppendur voru innpakkaðir í úlpu og góðan hlífðarfatnað í frostinu þá gekk Pita Taufatofua um brosandi í pilsi einu fata.





Pita Taufatofua er eini keppandi Tonga á leikunum en þessi eyjaklassi í Pólýnesíu býður ekki alveg upp á kjöraðstæður fyrir skíðagöngu.

Tonga eða Vináttueyjar er eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi á milli Nýja-Sjálands og Hawaii. Það er sunnan við Samóa og austan við Fídjieyjar. Þar er sól og yfir tuttugu stiga hiti allt árið.

Það hefur verið flakk á kappanum að undanförnu. Pita mætti nefnilega til Íslands til að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum en það gerði hann alþjóðlegu bikarmóti á gönguskíðum á Ísafirði.

Hinn 34 ára gamli Pita var búinn að mistakast það að tryggja sig inn á leikana á sjö mótum þegar hann kom til Ísafjarðar. Ísafjörður var hans síðasta von og þar tókst honum að tryggja sér farseðilinn.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Pita Taufatofua sem var tekið á Ísafirði og fyrir fésbókarsíðu Ólympíuleikanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×