Fótbolti

Kolbeinn mættur aftur á æfingu hjá Nantes og HM vonir vakna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson fagnar sigurmarki sínu á móti Englendingum á EM 2016.
Kolbeinn Sigþórsson fagnar sigurmarki sínu á móti Englendingum á EM 2016. Vísir/Getty
Kolbeinn Sigþórsson er allur að braggast eftir sautján mánaða fjarveru vegna meiðsla. Kolbeinn sagði frá því á Instagram síðu sinni í dag að hann væri farinn að æfa fótbolta á ný.

Kolbeinn er hjá franska liðinu Nantes en hann snéri þangað aftur eftir að hafa verið í láni hjá tyrkneska félaginu Galatasaray. Kolbeinn skrifaði undir fimm ára samning við Nantes sumarið 2015 sem gildir til júníloka 2020.



 
Feels great to be finally back @fcnantes

A post shared by Kolbeinn Sigþórsson (@kolbeinnsigthorsson) on Jan 19, 2018 at 5:39am PST





„Frábært að vera loksins komin til baka á æfingar hjá Nantes,“ skrifaði Kolbeinn á Instagram síðu sína eins og sjá má hér fyrir ofan.

Þetta eru frábærar fréttir en marga dreymir um að sjá Kolbein aftur í íslenska landsliðsbúningnum á HM í fótbolta í Rússlandi í sumar. Síðasti leikur hans með landsliðinu var á móti Frökkum í átta liða úrslitum á EM sumarið 2016.

Kolbeinn skoraði í tveimur síðustu landsleikjum sínum og er eins og er annar markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 22 mörk í 44 leikjum. Kolbein vantar fjögur mörk til að jafna met Eiðs Smára Guðjohnsen.

Kolbeinn meiddist haustið 2016 og hefur ekki spilað alvöru fótboltaleik síðan. Hans síðasti leikur með Nantes var 28. ágúst 2016 og vegna meiðslann náði hann ekki að spila með Galatasaray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×