Fótbolti

FIFA staðfestir að Danir séu búnir að stinga íslenska landsliðið af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik á móti Kósóvó á dögunum.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik á móti Kósóvó á dögunum. Vísir/Ernir
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fellur um eitt sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA,  sem var gefinn út í morgun.

Íslenska landsliðið er nú í 22. sætinu á milli Úrúgvæ og Senegal en öll þessu þrjú lönd verða með á HM í Rússlandi næsta sumar.

Fjórar þjóðir sem komust ekki á HM í Rússlandi eru fyrir ofan Ísland á nýja FIFA-listanum en það eru Síle (10. sæti), Ítalía (14. sæti), Wales (19. sæti) og Holland (20. sæti).

Íslenska landsliðið er nú dottið niður í 3. sæti meðal Norðurlandaþjóðanna en þessi nýi listi staðfestir frétt á Vísi frá því í síðustu viku þar sem kom fram að Danir væru að stinga íslenska landsliðið af á listanum.

Danska landsliðið hoppar upp um sjö sæti og alla leið upp í tólfta sæti. Svíarnir hækka sig um sjö sæti líka og fara því upp fyrir Ísland og í 18. sætið.

Íslenska landsliðið er nú tíu sætum á eftir Dönum en var 26 sætum á undan danska landsliðið í ágústmánuði. Það hefur því mikið breyst á stuttum tíma þótt að íslenska landsliðið sé aðeins tveimur sætum neðar en það var þá.

Íslands er einu sæti neðar en liðið var á listanum í nóvember fyrir ári síðan en strákarnir okkar eru jafnframt níu sætum ofar en þeir voru í nóvember 2015 og ellefu sætum ofar en þeir voru í nóvember 2014.

Það má nálgast allan styrkleikalistann hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×