Fótbolti

„Gamlir karlar“ í íslenska landsliðinu á HM í Rússlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason verður á 36. aldursári þegar HM fer fram í Rússlandi næsta sumar. Hann er elsti leikmaður íslenska liðsins.
Kári Árnason verður á 36. aldursári þegar HM fer fram í Rússlandi næsta sumar. Hann er elsti leikmaður íslenska liðsins. Vísir/Getty
Íslenska fótboltalandsliðið verður bæði með eitt elsta og hávaxnasta landsliðið á HM í Rússlandi ef marka má þá leikmenn sem tóku þátt hjá HM-liðunum í undankeppni HM.

CIES hefur tekið saman tölur um aldur, hæð og annað sem FIFA hefur síðan birt á heimasíðu sinni.

Meðalaldur íslenska landsliðsins í undankeppni HM var 29,0 ár og það er aðeins landslið Panama sem var eldra. Meðalaldur Panamabúa var 29,4 ár. Kosta Ríka var með sama meðalaldur og Ísland eða 29,0 ár.

Nígería var með yngsta liðið í undankeppninni af þeim þjóðum sem tryggðu sér farseðilinn til Rússlands en meðalaldur leikmanna liðsins var 24,9 ár. Heimsmeistarar Þýskalands voru næstyngstir en meðalaldur liðsins var aðeins 25,7 ár. Í þriðja sætið var síðan England (25,9 ár).

Íslenska landsliðið var einnig nálægt toppnum á öðrum lista en aðeins tvær þjóðir voru hærri en íslensku leikmennirnir að meðaltali.





Serbar voru með hávaxnasta liðið en meðalhæð leikmanna liðsins í undankeppni HM 2018 var 185,6 sentímetrar. Svíar voru að meðaltali 185,2 sentímetrar og Ísland var síðan í þriðja sæti ásamt Dönum með meðalhæð upp á 185,0 sentímetra.

Sádí Arabía var með lávaxnasta liðið en meðalhæð leikmanna þessa var 176,2 sentímetrar. Næst á undan voru Japan (178,1) og Perú (178,3).

CIES tók einnig saman hversu stór hluti leikmannanna sem spiluðu í undankeppninni voru fæddir utan landsins en það hlutfall hjá Íslandi er 4,9 prósent. Þrettán þjóðir eru fyrir ofan Ísland á þeim lista.

Ísland er ennfremur ein af þremur þjóðum, ásamt Króatíu og Svíþjóð, þar sem allir leikmenn í undankeppninni spiluðu utan heimalandsins. England og Sádí Arabía er hinum megin á listanum en allir leikmenn þeirra þjóða í undankeppni HM 2018 spiluðu í heimalandinu.

Það má finna meira um þessa samantekt hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×