Fótbolti

Mælir með því að koma til Íslands og horfa á HM með Íslendingum í miðnætursólinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenskir stuðningsmenn á Arnarhóli sumarið 2016.
Íslenskir stuðningsmenn á Arnarhóli sumarið 2016. Vísir/AFP
Grant Wahl er aðalblaðamaður bandaríska tímaritsins Sports Illustrated þegar kemur að skrifa um knattspyrnu. Hann er líka einn af mörgum aðdáendum íslenska landsliðsins.

Ísland er á leiðinni á HM í Rússlandi næsta sumar en Bandaríkjamenn sitja aftur heima í fyrsta sinn síðan á HM í Mexíkó 1986.

Grant Wahl skrifar reglulega pistil inn á vefsíðu Sports Illustrated þar sem hann svarar spurningum lesenda síðunnar um mál tengdum knattspyrnunni.



Ein af spurningunum var um hvaða lið Bandaríkjamenn eiga að halda með á heimsmeistaramótinu í Rússlandi þar sem að bandaríska landsliðið er ekki meðal keppenda.

Fyrsta liðið sem Grant Wahl nefnir er að sjálfsögðu íslenska landsliðið sem komst nú inn á HM í fyrsta sinn í sögunni. Wahl ráðleggur ekki Bandaríkjamönnum aðeins að halda með íslenska landsliðinu heldur einnig að heimsækja Ísland næsta sumar.

„Uppáhaldslið allra frá EM 2016 hefur tryggt sér farseðilinn á HM í fyrsta sinn og gæti bitið frá sér á HM. Ekki má heldur gleyma klappinu sem þeir taka með stuðningsmönnum sínum sem er svo flott. Ef þú ákveður að fara ekki til Rússlands á mótið þá væri kannski það skemmtilegasta sem þú gætir gert  að drífa þig bara til Íslands. Það væri gaman að horfa á HM með Íslendingum í miðnætursólinni. 22 tímar af sól á sólarhring, gott veður, hressir Íslendingar og nóg af Einstök. Skráið mig,“ skrifar Grant Wahl.

Það má annars sjá allan pistilinn hans hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×