Fótbolti

Brasilísku stjörnurnar þurftu súrefnisgrímur eftir leikinn í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilísku stjörnurnar eftir leikinn í nótt.
Brasilísku stjörnurnar eftir leikinn í nótt. Mynd/@CBF_Futebol
Brasilíumenn þurftu ekki að skora í Bólivíu í nótt því ólíkt Argentínumönnum þá eru þeir búnir að tryggja sér sæti á HM í Rússlandi næsta sumar.

Aðstæðurnar á Estadio Hernando Siles leikvanginum í La Paz reyndust stórstjörnum brasilíska landsliðsins afar erfiðar.

Bæði brasilíska knattspyrnusambandið og Neymar birtu myndir af leikmönnum brasilíska landsliðsins með súrefnisgrímur eftir leikinn milli Bolívíu og Brasilíu sem endaði með 0-0 jafntefli.





La Paz í Bólívíu er í 3637 metra hæð. Fyrir árið 2008 mátti ekki spila í meiri hæð en 2500 metrum en reglunum var breytt.

Á myndinni hér fyrir ofan sitja Alex Sandro (Juventus), João Miranda (Inter), Marquinhos (PSG), Gabriel Jesus (Man. City), Neymar (PSG) og Dani Alves (PSG).

„Það er ómanneskjulegt að spila við þessar aðstæður, í svona hæð og með þennan bolta. Allt var slæmt. Við erum samt ánægðir með frammistöðuna í þessum aðstæðum,“ skrifaði Neymar inn á Instagram-reikningnum eins og sést hér fyrir neðan.

Það er ekki að frétta annað en að súrefnisgjöfin eftir leik hafi verið nóg og enginn í brasilíska liðinu hafi hlotið skaða af því að spila í 90 mínútur í 3637 metra hæð.







Brasilíska landsliðið er með 38 stig og tíu stiga forskot á toppi Suður-Ameríku riðilsins en liðið er með markatöluna 38-11 og hefur ekki tapað nema einum leik af 17. Þetta var fimmta jafntefli Brasilíumanna í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×