Fótbolti

Jovetic kominn í klúbb með Maradona og Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stevan Jovetic er nýkominn til Sevilla en strax farinn að skrifa söguna.
Stevan Jovetic er nýkominn til Sevilla en strax farinn að skrifa söguna. Vísir/Getty
Svartfellingurinn Stevan Jovetic tryggði Sevilla 2-1 sigur á Real Madrid í gærkvöldi og sá með því öðrum fremur að 40 leikja sigurganga Real Madrid endaði á Ramón Sánchez Pizjuán leikvanginum í Andalúsíu.

Stevan Jovetic skoraði einnig í 3-3 jafntefli liðanna á sama leikvangi í spænska bikarnum á fimmtudagskvöldið og komst með þessum tveimur mörkum í fámennan hóp.

Meðlimir í klúbbnum eru ásamt Stevan Jovetic þeir Diego Maradona (með Barcelona 1983) Felipe (1989) Giovanni (1997) og Lionel Messi (með Barcelona 2011).

Þeir eru þeir einu sem hafa náð að skora í tveimur leikjum á móti Real Madrid með aðeins þriggja daga millibili.

Þetta eru einmitt fyrstu leikir Stevan Jovetic með spænska liðinu og jafnframt þeir fyrstu hjá honum í spænska boltanum. Ekki slæmt að skora tvisvar á þremur dögum á móti toppliðinu sem jafnframt er Evrópumeistari og heimsmeistari félagsliða.

Stevan Jovetic er nýkominn til Sevilla á láni frá ítalska félaginu Internazionale en margir muna eftir því þegar Jovetic var hjá Manchester City þar sem hann skorað 8 mörk í 28 leikjum frá 2013 til 2015.

Stevan Jovetic fagnar markinu sínu.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×