Fótbolti

Versta tap Bandaríkjanna í áratugi | Aron á bekknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jürgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna.
Jürgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Starf Jürgen Klinsmann sem landsliðsþjálfari Bandaríkjanna virðist hanga á bláþræði eftir að lið hans steinlá fyrir Kostaríku, 4-0, í undankeppni HM 2018.

Bandaríkin hefur þar með tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í lokaumferð undankeppninnar og er neðst í riðlinum án stiga. Bandaríkin hefur aldrei fyrr tapað tveimur fyrstu leikjunum sínum á þessu stigi undankeppninnar.

Bandaríkin tapaði fyrir Mexíkó, 2-1, á heimavelli á föstudagskvöldið. Kostaríka hefur að sama skapi unnið tvo fyrstu leiki sína í keppninni og er eina liðið í riðlinum með fullt hús stiga. Þetta er versta tap Bandaríkjanna í undankeppni HM í 36 ár.

Þetta er enn fremur í fyrsta sinn sem að Bandríkin fær á sig fjögur mörk í leik í undankeppni HM síðan liðið tapaði fyrir Kanada árið 1968. Þetta er enn fremur stærsta tap liðsins í leik þar sem liðið nær ekki að skora síðan 1957.

Aron Jóhannsson kom ekkert við sögu í leiknum í nótt en hann var sömuleiðis ónotaður varamaður í leiknum gegn Mexíkó á föstudag.

Joel Campbell, leikmaður Arsenal sem er nú í láni hjá Sporting Lissabon í Portúgal, kom inn á sem varamaður á 66. mínútu og skoraði tvö síðustu mörk Kostaríku í leiknum.

Sex lið eru í riðlinum í undankeppninni og þrjú efstu komast beint áfram í lokakeppnina sem fer fram í Rússlandi. Liðið í fjórða sæti tryggir sér þátttökurétt í umspili.

Næsti leikur Bandaríkjanna verður Hondúras í mars en svo gæti farið að búið verði að skipta um landsliðsþjálfara þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×