Fótbolti

Ísland langefst af Norðurlöndunum | Færeyjar upp um 37 sæti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku strákarnir eru í góðri stöðu í undankeppni HM 2018 eftir tvo sigra fyrr í mánuðinum.
Íslensku strákarnir eru í góðri stöðu í undankeppni HM 2018 eftir tvo sigra fyrr í mánuðinum. vísir/andri marinó
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í 21. sæti á nýjum heimslista FIFA sem var birtur í dag.

Ísland fer upp um sex sæti frá síðasta lista en íslenska liðið hefur aldrei verið ofar á heimslistanum.

Ísland vann góða sigra á Finnlandi og Tyrklandi í undankeppni HM 2018 fyrr í mánuðinum og þeir skila íslenska liðinu upp í 21. sæti, sem er einu sæti ofar en það var eftir EM í Frakklandi í sumar.

Argentína er áfram í efsta sæti heimslistans en Þýskaland er komið upp í 2. sætið og Brasilía í það þriðja.

Ísland er áfram besta Norðurlandaþjóðin en íslenska liðið er heilum 18 sætum fyrir ofan Svíþjóð. Danmörk er í 50. sæti, Færeyjar hoppa upp um 37 sæti og eru komnar í 74. sæti. Noregur er í 81. sæti og Finnland í 101. sæti.

Svartfellingar eru hástökkvarar listans að þessu sinni en þeir fara upp um heil 49 sæti, úr 105. sæti í 56. sæti. Kýpverjar hrapa hins vegar lengst niður listann að þessu sinni, eða um heil 52 sæti.

Ísland er næstbesta liðið í I-riðli undankeppni HM 2018 samkvæmt heimslistanum. Króatar eru í 16. sæti, fjórum sætum fyrir ofan Íslendinga. Tyrkir eru í 25. sæti, Úkraínumenn í 29. sæti, Finnar í 101. sæti og Kósovóar í 164. sæti.

Topp tíu:

1. Argentína

2. Þýskaland

3. Brasilía

4. Belgía

5. Kólumbía

6. Síle

7. Frakkland

8. Portúgal

9. Úrúgvæ

10. Spánn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×