Fótbolti

„Engin tilviljun að Ísland er komið svona langt“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir okkar eru komnir í átta liða úrslit.
Strákarnir okkar eru komnir í átta liða úrslit. vísir/vilhelm
Didier Dechamps, þjálfari Frakklands, og Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði liðsins, sátu blaðamannafund franska landsliðsins á Stade de France í morgun fyrir leik liðsins gegn Íslandi annað kvöld.

Báðir töluðu af mikilli virðingu um Ísland en Lloris var spurður hvort sigur Wales á Belgíu í átta liða úrslitum mótsins í gær hefði sýnt franska liðinu að minni liðin væru hættuleg.

„Við þurftum ekkert að sjá úrslitin hjá Wales í gær til að fara okkur við því. Við vitum að það eru góð lið á mótinu og við erum búnir að sjá óvænt úrslit á EM allt frá byrjun,“ sagði Lloris.

„Það er engin tilviljun að Ísland er komið svona langt. Stækkun mótsins hefur hleypt smærri liðum að en er um leið að sýna að það eru engin smálið í Evrópu. Öll lið hafa sínar aðferðir og Ísland er búið að vera á góðum spretti frá upphafi móts. Þetta er lið með frábæra liðsheild, 2-3 topp leikmenn, mikið hjarta og mikla samheldni.“

Didier Dechamps, þjálfari franska liðsins, tók í sama streng og fyrirliðinn þegar hann var spurður hvort hann þyrfti að berjast gegn því að hans menn myndu vanmeta íslenska liðið á morgun.

„Við þurfum ekki að berjast gegn því,“ sagði hann ákveðinn. „Leikmennirnir horfa á leiki og þeir vita vel að Ísland er ekki hér fyrir tilviljun. Það hefur engu stolið á þessu móti. Það komst upp úr sínum riðli og vann svo England. Ísland er komið þetta langt því það átti það skilið.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×