Fótbolti

Heimir: Vel stætt fólk í sumarleyfi þannig að við fáum frið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aukningin á erlendum fjölmiðlamönnum sem fylgjast með íslenska liðinu í Frakklandi hefur verið mikil síðustu tvo daga.

Þröngt var um manninn á blaðamannafundinum í gær en í dag voru fleiri fjölmiðlamenn mættir á æfingu liðsins en nokkru sinni fyrr. Heimir Hallgrímsson gat lítið annað gert en hlegið þegar hann sá fjöldann í dag.

„Þetta sýnir smá hvað við erum barnalegir að halda við getum verið með Mixed Zone hérna með 8.000 sjónvarpsvélar á okkur. Við erum að reyna að gera okkar besta í að vera sýnilegir og svoleiðis. Auðvitað er þetta samt bilun,“ segir Heimir.

Það er eins gott að knattspyrnusambandið valdi ekki stærri bæ eða borg en Annecy til að að hafa höfuðstöðvar sínar í. Þessi smábær hentar íslenska liðinu frábærlega þar sem strákarnir fá meira og minna algjöran frið og geta meira að segja rölt um miðbæinn óáreittir.

„Þetta er lykilþáttur í dag sem ég gerði mér ekki nógu mikla grein fyrir í upphafi. Það skiptir svo miklu máli að vera á stað þar sem þú ert algjörlega einn. Við erum á hóteli einir þannig við þurfum ekki að taka tillit til einhverra annarra,“ segir Heimir.

„Umhverfið er svo fallegt hérna að það róar mann niður og bærinn er þannig að menn geta verið frjálsir. Það er ekki mikill fótboltaáhugi í Annecy. Þetta virðist vera meira vel stætt fólk í sumarleyfunum sínum þannig leikmennirnir fá frið og geta rölt um bæinn sem er rosalega mikilvægt,“ segir Heimir Hallgrímsson.

Alla fréttina má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×