Innlent

Nautgriparæktin sögð í gíslingu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Kálfar Bolakálfar á bás sínum. Bændur eru langþreyttir á verkfalli dýralækna.
Kálfar Bolakálfar á bás sínum. Bændur eru langþreyttir á verkfalli dýralækna. Fréttablaðið/GVA
Í venjulegu árferði hefðu fengist um 600 tonn af afurðum úr slátrun á tæplega 3.000 nautgripum á því tímabili sem verkfall dýralækna hefur staðið, frá 20. apríl, að því er fram kemur á vef Félags íslenskra kúabænda.

„Við blasir því að víða er farið að þrengjast verulega um í fjósum. Sárafáar undanþágur hafa fengist til slátrunar nautgripa. Undanþágur eru eingöngu veittar á grundvelli sjónarmiða um dýravelferð og er gerð krafa um úttekt dýralæknis á stöðu dýravelferðar á viðkomandi búi, eigi undanþága að fást,“ segir í umfjöllun félagsins.

Augaleið gefi að slátrun á fáum gripum í senn yrði bæði „hrikalega“ kostnaðarsamt og tímafrekt.

„Það er því niðurstaða Landssambands kúabænda að þær leikreglur sem settar hafa verið til að fá undanþágur frá verkfallsaðgerðum eftirlitsdýralækna séu óframkvæmanlegar og algerlega ótækar frá sjónarhóli nautgriparæktarinnar.“

Bændur hafi sýnt kjarabaráttu dýralækna þolinmæði og skilning, en þegar aðgerðir standi svo mánuðum skiptir og haldi „nautgriparæktinni einni í gíslingu“ sé mál að linni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×