Fótbolti

Vann Grikkland á föstudegi og mættur að smíða á mánudegi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fróði Benjaminsen mættur til starfa á mánudegi.
Fróði Benjaminsen mættur til starfa á mánudegi. mynd/skjáskot
Færeyska knattspyrnulandsliðið vann stærsta sigur sinn í sögunni þegar það lagði fyrrverandi Evrópumeistara Grikklands að velli í undankeppni EM 2016, 1-0, á útivelli fyrir viku síðan.

Eftir leikina í undankeppninni héldu leikmenn Grikklands til sinna félagsliða þar sem þeir fá milljónir borgaðar fyrir að spila fótbolta, en annað var uppi á teningnum hjá mörgum leikmönnum Færeyja.

Fróði Benjaminsen, fyrirliði færeyska liðsins og fyrrverandi leikmaður Fram, var mættur aftur í vinnuna á mánudagsmorgni, en hann er smiður í heimalandinu.

Aðspurður í skemmtilegu innslagi Kringvarpsins hvort hann væri orðin stjarna eftir sigurinn svaraði Fróði: „Nei, það held ég ekki. Þetta er dagur eins og hver annar. Mánudagur í vinnunni. Þannig er það bara.“

Hann segir þó öllu skemmtilegra að mæta í vinnuna eftir sigurleik en alla þessa tapleiki. „Það er mjög gaman og allir óska manni til hamingju. Það er ekki alltaf jafn gaman að heyra kaldhæðnisleg tilsvör manna. Nú er þetta bara jákvætt.“

Fróði er 36 ára gamall, giftur, í fastri vinnu með þrjú börn og spilar fótbolta. Hvernig er hægt að láta þetta allt ganga upp?

„Það er í raun ekki hægt. Fjölskyldan situr á hakanum, en án hennar væri þetta ekki hægt. Ef maður vill spila fótbolta þarf maður að æfa mikið,“ segir Fróði Benjaminsen.

Þetta skemmtilega innslag má sjá hér að neðan, en það er textað á ensku.


Tengdar fréttir

Sjáðu fögnuð Færeyjinga í Grikklandi

Færeyjar unnu í gær einn sinn stærsta, ef ekki stærsta sigur í sögu knattspyrnusambandsins þegar liðið vann Grikkland í Grikklandi 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×