Fótbolti

Hiddink: Svolítið öfundsjúkur út í íslenska liðið | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guus Hiddink, þjálfari hollenska landsliðsins, hitti her hollenska blaðamanna fyrir æfingu liðsins í kvöld og blaðamannafundur hans fór að mestu fram á hollensku. Hiddink svaraði þó einni spurningu á ensku og hrósaði þar íslenska landsliðinu.

„Ég viðurkenni það alveg að ég er svolítið öfundsjúkur út í íslenska liðið því að þeir eru með fullt hús eftir tvo leiki," sagði Guus Hiddink. Ísland er á toppnum með 6 stig og markatöluna 6-0 en hollenska liðið hefur "bara" þrjú stig og er búið að fá á sig þrjú mörk.

„Íslenska landsliðið er ekki bara meðalgott lið, því þetta er baráttuglatt lið sem ofan á það getur einnig spilað fótbolta. Þeir hafa bæði hæfileikaríka leikmenn og skapandi leikmenn," sagði Hiddink og bætti við:

„Fremstu menn liðsins halda alltaf áfram að vinna og að reyna að skapa eitthvað. Þeir láta varnarlínuna aldrei í friði," sagði Hiddink.

„Ísland er með ferskt lið sem hefur þegar náð sér í nokkra reynslu, bæði í lokakeppni yngri landsliða en einnig með því að spila í sterkum deildum," sagði Guus Hiddink.

Það má sjá  Guus Hiddink á blaðamannafundinum með því að smella á myndbandið hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Rúrik: Erum ekki eins og gamla Ísland

Rúrik Gíslason, vængmaður íslenska landsliðsins, segir að íslenska landsliðið í dag spili ekki eins fótbolta og "gamla" Ísland.

Gylfi bara á strigaskónum á æfingunni

Íslenska karlalandsliðið æfði í dag á Laugardalsvellinum og margra augu voru á Gylfa Þór Sigurðssyni sem meiddist í sigurleiknum í Lettlandi á föstudagskvöldið. Framundan er leikur við Hollendinga á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×