Sport

Serena Williams óvænt úr leik á Wimbledon-mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serena Williams.
Serena Williams. Mynd/Nordic Photos/Getty
Stóru stjörnurnar halda áfram að detta úr leik á Wimbledon-mótinu í tennis en Serena Williams tapaði óvænt í 4. umferð í dag. Serena Williams var fyrir leikinn í dag búin að vinna 34 leiki í röð og var sigurstranglegust á mótinu.

Serena Williams tapaði fyrir þýsku stelpunni Sabine Lisicki í þremur settum, 2-6, 6-1 og 4-6 en á sama tíma og Williams varð raðað númer eitt inn í mótið þá kom Sabine Lisicki inn í 23. sæti.

Áður höfðu stór nöfn eins og Roger Federer, Rafael Nadal og Maria Sharapova fallið úr keppni á mótinu.

Bretinn Andy Murray og Serbinn Novak Djokovic tryggðu sér báðir sæti í átta manna úrslitum í einliða leik karla í dag, Murray vann Mikhail Youzhny 6–4, 7–6 og 6–1 en Djokovic vann Tommy Haas 6–1, 6–4, 7–6.

Kaia Kanepi frá Eistlandi sló út ensku stelpuna Lauru Robson í einliðaleik kvenna og Agnieszka Radwańska frá Póllandi er komin áfram eftir sigur á Tsvetana Pironkova frá Búlgaríu.

Juan Martín del Potro frá Argentínu, Tomáš Berdych frá Tékklandi og David Ferrer frá Spáni tryggðu sér síðan allir sæti í átta manna úrslitum í einliðaleik karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×