Sport

Magnaður Djokovic í úrslit án þess að svitna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Novak Djokovic sýndi ótrúleg tilþrif þegar hann tryggði sér sæti í úrslitaleik Opna ástralska meistaramótsins í tennis.

Djokovic hafði betur gegn Spánverjanum David Ferrer með miklum yfirburðum, 6-2, 6-2 og 6-1, en viðureignin tók aðeins eina klukkustund og 29 mínútur.

Serbinn öflugi hefur þrívegis unnið Opna ástralska mótið og getur nú um helgina orðinn fyrsti maðurinn í nútímatennis til að vinna mótið þrjú ár í röð.

„Ég spilaði ótrúlega," sagði Djokovic. „Ég var mjög öruggur og leið vel strax frá byrjun. Þetta var án nokkurs vafa ein mín besta frammistaða á ferlinum."

Djokovic mætir annað hvort Roger Federer eða Andy Murray í úrslitunum á sunnudagsmorgun. Þeir Federer og Murray eigast við annað kvöld og er ljóst að þar verður hart barist.

Djokovic fær því aukadag í hvíld auk þess að hafa átt mjög náðuga undanúrslitaviðureign gegn Ferrer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×