Lífið

Fólk hendir sér í dansinn

Allir dansa Hópurinn Choreography Reykjavík skipuleggur Lunch Beat. Hér sjást Hrafnhildur Einarsdóttir, Clara Folenius, Ásgerður Gunnarsdóttir og Alexander Roberts.Fréttablaðið/pjetur
Allir dansa Hópurinn Choreography Reykjavík skipuleggur Lunch Beat. Hér sjást Hrafnhildur Einarsdóttir, Clara Folenius, Ásgerður Gunnarsdóttir og Alexander Roberts.Fréttablaðið/pjetur
Dansviðburðurinn Lunch Beat hefur slegið rækilega í gegn frá því hann hóf göngu sína í ágúst.

Dans Dansviðburðurinn Lunch Beat hefur slegið rækilega í gegn frá því hann var haldinn hér fyrst í tengslum við Reykjavík Dance Festival í lok ágúst. Hópur fólks sem starfar við danslist sér um að skipuleggja viðburðinn sem á upptök sín í Svíþjóð.

Lunch Beat hófst í Svíþjóð fyrir tveimur árum þegar hópur fólks ákvað að hittast eitt hádegi og dansa. Þetta vatt síðar upp á sig og nú hefur viðburðurinn verið haldinn víða um heim.

Listrænir stjórnendur Reykjavík Dance Festival skipulögðu fyrstu þrjú skiptin en eftir það tók hópurinn Choreography Reykjavík við keflinu.

„Við höfum skipulagt síðustu tvö skipti og þau voru vel sótt. Það er alls konar fólk sem mætir og hendir sér strax út í dansinn," segir Ásgerður Gunnarsdóttir, einn af meðlimum Choreography Reykjavík. Hópurinn býður einnig upp á léttan hádegismat fyrir dansarana.

„Plötusnúðarnir hafa talað um hvað þeim þyki þetta gaman því þarna myndast allt öðruvísi stemning en um helgar. Þarna er fólk saman komið til að hlusta, dansa og virkilega njóta sín."

Ásgerður segir að ekki fari mikill tími í að skipuleggja viðburðinn því flestir séu boðnir og búnir til að leggja hópnum lið. „Flestir taka vel í þetta, bæði plötusnúðarnir og eigendur skemmtistaðanna. Sjálfum finnst okkur þetta gefandi, fallegt og gaman að standa í þessu."

Næsta Lunch Beat fer fram 1. nóvember á Hemma og Valda.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×