Viðskipti erlent

Allt í hnút í Grikklandi

Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, glímir við gríðarleg efnhagsleg og pólitísk vandamál þessa dagana.
Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, glímir við gríðarleg efnhagsleg og pólitísk vandamál þessa dagana.
Forsætisráðherra Grikklands, Lucas Papademos, tókst ekki að ná samkomulagi við forystumenn grískra stjórnmálaafla um aðgerðir í ríkisfjármálum, til þess að geta fengið 130 milljarða evra neyðarlán frá Evrópusambandinu (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Fundi í kvöld lauk án niðurstöðu, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Þar segir enn fremur að ekki hafi náðst að ná samkomulagi um miklar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu sem hefðu haft það í för með sér, að ríkið hefði sparað sér mikil útgjöld á kostnað þiggjenda lífeyris.

Samkvæmt frétt BBC fór Papademos rakleiðis til fundar við forystumenn ESB, AGS og kröfuhafaráðs landsins, eftir að ljóst varð að ekki væri mögulegt að ná þverpólitísku samkomulagi um aðgerðir í ríkisfjármálum.

Skuldavandi landsins er mikill og er jafnvel búist við því að ekki verði hjá því komist að landið fari í gjaldþrot, fyrst evruríkja.

Aðgerðirnar sem deilt erum eru gríðarlegar umfangsmiklar og munu hafa mikil samfélagsleg áhrif í Grikklandi. Að því er segir í frétt BBC verða lægstu laun opinberra starfsmanna lækkuð um 22 prósent til viðbótar við það sem þegar hefur komið til framkvæmda og fimmtán þúsund opinberum starfsmönnum verður sagt upp. Þá stendur vilji stjórnar Papademos til þess að lækka lífeyrisgreiðslur um 15 prósent til viðbótar.

Reiknað er með því að Papademos muni funda með helstu forystumönnum ESB og AGS allan morgundaginn, að því er BBC greinir frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×