Viðskipti erlent

Góðar líkur á að vinnanleg olía hafi fundist við Grænland

Góðar líkur eru á því að skoska olíufélagið Cairn Energy hafi loksins fundið vinnanlega olíu við Grænland.

Fjallað er um málið í grænlenskum og dönskum fjölmiðlum en Cairn Energy sendi frá sér tilkynningu í gærdag um stöðuna í borholunni AT7 sem liggur í um 200 kílómetra fjarlægð í vestur frá Nuuk.

Í þessari holu er félagið komið niður á 50 metra þykkt lag af svokölluðum olíusandi en slíkur sandur þykir gefa merki um að vinnanlega olíu sé að finna í jarðlögum á þessu svæði. Sandurinn fannst á um 900 metra dýpi en áætlað er að AT7 holan verði um 3.600 metra djúp.

Þá hafa fundist merki um bæði olíu og gas í leðjunni sem dælt er jafnóðum upp úr holunni eftir því sem hún dýpkar.

Sökum þess hve efnileg þessi borhola þykir hefur Cairn Energy fjárfest í rándýrum útbúnaði, sem kallast MDT og ætlað er að taka jarðvegssýni á miklu dýpi úr olíuborholum. Þetta er í fyrsta sinn sem félagið kaupir slíkan útbúnað frá því að olíuleit þess hófst við Grænland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×