Fótbolti

300 þúsund stuðningsmenn Dortmund vilja sjá bikarinn fara á loft

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Mikill fjöldi stuðningsmanna Dortmund hafa óskað eftir miða á síðasta heimaleik liðsins í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu enda líkur á að liðið verði krýnt meistari eftir leikinn.

Dortmund mætir þá Eintracht Frankfurt á velli sínum, Signal Iduna Park, sem tekur um 80 þúsund manns í sæti. 50 þúsund ársmiðahafar hafa forgang auk þess sem að stuðningsmenn Frankfurt fá átta þúsund miða.

Dortmund hefur auglýst að aðeins séu rúmlega 21 þúsund miðar eftir og hefur félagið fengið meira en 300 þúsund beiðnir um miða á leikinn.

Sú tala gæti reyndar orðið enn hærri þar sem að umsóknarfrestur rennur ekki út fyrr en 10. apríl.

Dortmund er með sjö stiga forystu á toppi deildarinnar þegar sjö umferðir eru eftir. Liðið varð síðast meistari árið 2002.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×