Viðskipti erlent

Hagnaður norska olíusjóðsins 13.000 milljarðar

Hagnaður norska olíusjóðsins á síðasta ári nam 613 milljörðum norskra kr. eða rúmlega 13.000 milljörðum kr. Þetta er langmesti hagnaður á einu ári í sögu sjóðsins.

Í frétt á vefsíðunni e24.no segir að þetta sé alger viðsnúningur á rekstri sjóðsins því árið 2008 tapaði sjóðurinn álíka upphæð eða 633 milljörðum norskra kr.

„Þróunina árið 2009 má skoða í ljósi þess sem gerðist 2008 þegar fjármálakreppan stóð yfir," segir Yngve Slyngstad forstjóri sjóðsins. „Langtímastefna sjóðsins tryggði að við fórum í gegnum þetta tímabil á góðan máta."

Í árslok 2009 var stærð norska olíusjóðsins komin í 2.640 milljarða norskra kr. eða hina stjarnfræðilegu upphæð rúmlega 57.000 milljarða kr. Tekið er fram í frétt e24.no að sterkt gengi norsku krónunnar á síðasta ári hafi dregið úr verðgildi sjóðsins um 418 milljarða norskra kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×