Fótbolti

Van Gaal: Auðvelt að segja svona eftir að hafa tapað

Elvar Geir Magnússon skrifar
Arjen Robben fagnar eftir að hafa skotið FC Bayern áfram.
Arjen Robben fagnar eftir að hafa skotið FC Bayern áfram.
Louis Van Gaal, hinn hollenski þjálfari FC Bayern, var að vonum ánægður með að sínir menn hafi slegið út Manchester United. Hann er þó alls ekki sammála ummælum kollega síns, Sir Alex Ferguson, eftir leik.

„Ég hélt að England væri þekkt fyrir sanngirni. Ég hef verið spurður út í ummæli sem ég skilgreini ekki sem heiðarleg," sagði Van Gaal.

Ferguson sagði eftir leik að leikmenn FC Bayern hefðu náð að veiða Rafael af velli með rautt spjald. „Ég er ekki sammála skoðun Sir Alex. Að hafa stjórn á sér er hluti af því að vera atvinnumaður í fótbolta. Allir leikmenn verða að þekkja starf sitt," sagði Van Gaal. „Ef þú færð gult spjald þýðir það að þú færð rautt ef þú færð annað gult. Allir leikmenn ættu að vita það og brotið hjá Rafael verðskuldaði gult. Það var hann sem braut af sér, ekki við."

„Varðandi ummælin um að United hefði alltaf unnið með fullskipað lið þá munum við aldrei komast að því. Ég veit það ekki og ekki heldur Sir Alex vegna þess að leikurinn verður ekki spilaður aftur. Það er auðvelt að segja svona hluti eftir að hafa tapað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×