Viðskipti erlent

Sullivan og Gold leggja fram tilboði í West Ham fyrir helgi

Viðskiptafélagarnir David Sullivan og David Gold munu að öllum líkindum leggja fram tilboð í enska úrvalsdeildarliðið West Ham fyrir helgina. Þetta kemur fram í blaðinu Telegraph í morgun.

Blaðið segir jafnframt að tilboði þeirra verði hafnað. Þeir Sullivan og Gold hyggjast bjóða 25-30 milljónir punda í West Ham eða allt að ríflega 6 milljarða kr. Þar að auki bjóðast þeir til þess að yfirtaka allar skuldir og skuldbindingar liðsins.

Straumur, sem á meirihluta í West Ham, vonast hinsvegar til þess að fá 80 milljónir punda fyrir liðið auk yfirtöku á skuldum. Verðmiðinn sem Straumur setur á West Ham hljóðar því upp á 120 milljónir punda, eða nær 25 milljarða kr. en skuldir liðsins nema nú 38 milljónum punda.

Það er Rothschild bankinn sem annast hefur um söluferlið hjá West Ham og að sögn Telegraph hefur bankinn fengið fyrirskipanir um að ljúka því ferli fyrir helgina.

Aðrir áhugasamir kaupendur eru fjárfestirinn Tony Fernandes frá Malasíu og Intermarket Group, fjármálafyrirtæki í London.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×