Viðskipti erlent

Hinir ofurríku tapa mest á fjármálakreppunni

Fjöldi ofurríkra einstaklinga hefur minnkað um fjórðung í fjármálakreppunni og þar með hefur dregið úr sannleika kenningarinnar um að hinir ríku haldi betur á fjármunum sínum en aðrir.

Í umfjöllun Financial Times um málið er vitnað í nýja skýrslu, World Wealth Report, sem gefin er út árlega af Capgemini og Merrill Lynch. Þar segir að hinum ofurríku, þ.e. fólki sem á 30 milljónir dollara eða 3,8 milljarða kr., hafi fækkað um tæp 25% á síðasta ári og eru þeir nú 78.000 talsins á heimsvísu.

Þetta er töluvert meiri hlutfallsleg fækkun en hjá þeim sem eru dollaramilljónamæringar í heiminum. Eins og fram kom í frétt hér á síðunni í gær fækkaði þeim um tæp 15% í fyrra.

Þetta þýðir að fjölgun þessara auðmanna í báðum hópunum frá árinu 2005 hefur þurrkast út.

Milljóna og milljarðamæringar eru sem fyrr flestir í Bandaríkjunum. Hinsvegar hefur þeim fjölgað verulega í Kína á undanförnum árum sem eiga meir en milljón dollara í fórum sínum. Voru þeir 364.000 talsins í fyrra. Var það í fyrsta sinn í sögunni sem þeir verða fleiri talsins en í Bretlandi. Breskir dollaramilljónamæringar í fyrra voru 362.000 talsins og fækkaði þeim um 131.000 á árinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×