Viðskipti erlent

Royal Unibrew tekur upp slaginn gegn Carlsberg

Royal Unibrew næststærstu bruggverksmiðjur Danmerkur ætla að taka upp slaginn við stórabróður á markaðinum Carlsberg. Þetta kemur fram í sjónvarpsviðtali á börsen.dk við Henrik Brandt forstjóra Royal Unibrew.

Eins og kunnugt er af fréttum halda Stoðir um 16% hlut í Royal Unibrew og eru þar með stærsti einstaki hluthafinn. Straumur á svo rúmlega 4% í viðbót í bruggverksmiðjunum.

Royal Unibrew náði öl- og gossöluni í Tívolí frá Carlsberg fyrr í mánuðinum og vakti það mikla athygli danskra fjölmiðla. Brandt segir að þar verði ekki stöðvað og boðar áframhaldandi strandhögg inn á umráðasvæði Carlsberg. Eða eins og það er orðað á börsen: „Hann er klár í fleiri bardaga við stórabróður."

„Ég ber mikla virðingu fyrir Carlsberg sem samkeppnisaðila," segir Brandt. „Carlsberg er duglegt en það erum við líka. Við erum tilbúnir og okkur hlakkar til að kljást við Carlsberg á fleiri stöðum."

Brandt dregur ekki dul á að Tívolí samningurinn gefi Royal Unibrew „einstakan möguleika" á að kynna drykkjuvörur sínar, bæði öl og gos.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×