Sport

Jón Arnór: Þetta er stórt skref fyrir íslenskan körfubolta

Ómar Þorgeirsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Anton

Jón Arnór Stefánsson fór á kostum í 87-75 sigri Íslands gegn sterku liði Hollands í B-deild Evrópukeppninnar í Smáranum í Kópavogi í dag.

Jón Arnór skoraði 23 stig en þar af skoraði hann 21 stig í fyrri hálfleik og átti stóran þátt í því að Ísland leiddi með 28 stigum þegar flautað var til hálfleiks.

„Ég er í skýjunum með þetta eins og allir aðrir í liðinu. Þetta var frábær sigur gegn mjög sterku liði Hollendinga og þetta var bara stórt skref fyrir íslenskan körfubolta. Fólk verður að gera sér grein fyrir því," segir Jón Arnór sem hrósaði stemningunni í íslenska liðinu í leiknum.

„Við náðum að keyra á þá strax í fyrsta leikhluta og ég held að það hafi komið þeim verulega á óvart. Við hittum líka í þokkabót eins og ég veit ekki hvað og lögðum þar með grunninn að góðum sigri. Þeir voru bara sjokkeraðir held ég. Við spiluðum mjög kláran varnarleik á þá og náðum að tvídekka þá á þeim stöðum á vellinum þar sem við erum veikastir fyrir útaf af hæðarmun.

Þetta kom allt flott út og setur okkur í fín mál í riðlinum og þó svo að leikurinn gegn Svartfellingum verði erfiður þá eigum við að vinna Austurríkismenn á góðum degi líkt og við gerðu hér í dag," segir Jón Arnór vongóður.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×