Viðskipti innlent

Mikil velta í Kauphöllinni

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar. Hann segir sumarið hafa verið óvenjulegt.
Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar. Hann segir sumarið hafa verið óvenjulegt.

Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni er þegar orðin jafn mikil og hún var allt síðasta ár. Veltan nam 2.198 milljörðum króna um hádegisbil í dag en á sama tíma í fyrra námu heildarviðskipti hlutabréfa 1.306 milljörðum króna. Aukningin nemur 68 prósentum.

Velta með kauphallarsjóðinn (ETF) hefur margfaldast en heildarviðskiptin það sem af er ári eru 23 milljarðar króna samanborið við rúma sex milljarða á sama tíma í fyrra, að því er segir í tilkynningu frá Kauphöllinni.

Heildarveltan í Kauphöllinni er nú orðin 3.556 milljarðar, en á sama tíma í fyrra var hún 2.639 milljarðar. Aukningin er því 35 prósentum.

Heildarveltan í júlí nam 530 milljörðum sem þýðir að sá mánuður er sá veltuhæsti frá upphafi. Jafnframt var veltumesti dagur frá upphafi í síðasta mánuði en þá skiptu bréf Actavis um hendar og nam veltan þann daginn rúmum 300 milljörðum króna.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir í tilkynningunni að veðursæld hafi einkennt sumarið og hafi ýmis met verið sett á þeim vettvangi. „Sumarið hefur einnig verið óvenjulegt á verðbréfamarkaði. Sumartíminn hefur oftast verið fremur kyrrlátur en nú bregður svo við að veltumet hafa fallið svo um munar," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×