Viðskipti innlent

Landsbankinn spáir 0,5 prósenta hagvexti

Greiningardeild Landsbankans spáir því að hagvöxtur á árinu verði 0,5 prósent en gerir ráð fyrir að hann muni glæðast á næsta ári þrátt fyrir minnkandi sjávarafla. Upp á móti samdrættinum vega stóriðjuframkvæmdir og vaxandi álútflutningur, sem muni skila sér í 2,5 til 3,0 prósenta hagvexti á árunum 2008 til 2009.

Greiningardeildin hélt morgunverðarfund í dag þar sem hagspá bankans var kynnt.

Í spánni kemur meðal annars fram að krónan muni haldast áfram sterk en að neikvæðar horfur í sjávarútvegi geti sett strik í reikninginn og valdið tímabundinni veikingu. Gerir greiningardeildin ráð fyrir því að gengisvísitalan verði um 117,5 stig að meðaltali á þessu ári en styrkist síðan aftur vegna hás vaxtamunar og áframhaldandi stóriðjuframkvæmda.

Deildin segir ennfremur að margt bendi til að fasteignaverð sé að ná hámarki eftir nokkra hækkun síðustu mánuði. Eigi hún ekki von á mikilli leiðréttingu eða verðhruni þar sem greiðslubyrði heimilanna sé viðráðanleg og víxlverkandi verðlækkun því takmörkuð. Muni fjárfesting íbúðarhúsnæði dragast saman á næstu árum, að mati deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×