Viðskipti innlent

Engin merki um samdrátt á fasteignamarkaði

Heildarútlán innlánastofnana til íbúðarkaupa námu 3,7 milljörðum króna í febrúar sem jafngildir 900 milljóna króna aukningu á milli mánaða. Heildarútlán Íbúðalánasjóðs 4,4 milljörðum króna á sama tíma en það er sömuleiðis aukning á milli mánaða.

Greiningardeild Kaupþing segir í Hálffimmfréttum sínum í dag að íbúðavelta hafi að sama skapi aukist töluvert frá því í janúar.

Deildin segir að miðað við veltutölur frá Fasteignamati ríkisins fyrir fyrstu tvær vikurnar í mars virðist góður gangur á fasteignamarkaði og engin merki um að það sé að draga úr umsvifum.

„Aukin samkeppni á íbúðalánamarkaði síðustu vikur, sem hefur skilað sér í auðveldara aðgengi að lánsfé, ætti að öðru óbreyttu að leiða til aukinnar eftirspurnar á markaði og þar með ýta undir frekari hækkun fasteignaverðs á landinu öllu. Aukin aðsókn íslenskra heimila í erlenda fjármögnun gæti jafnframt aukið enn frekar eftirspurn á markaði," segir í Hálffimmfréttum og bent á að gengisbundin lán heimila hafi aukist í febrúar um rúmlega 12 milljarða krónur miðað við fast gengi. Virðist sem töluvert sé um tilfærslur úr verðtryggðum lánum yfir í erlend lán, að mati deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×