Svarta fagnaðarerindið boðað í Iðnó

Dagur og Þórir komu og boðuðu fagnaðarerindi kölska sem fer fram í tónleikaformi í Iðnó 13. September. Einnig ræddum við um svartmálm almennt og lagasmíðatækni. Vánagandr og Luxor kynna: Föstudaginn 13. september munu fjórar kynslóðir íslensks svartmálms leiða saman hesta sína í Iðnó. Misþyrming hefur um árabil verið ein allra öflugasta og ötulasta þungarokkssveit landsins og í fararbroddi tónlistarstefnunnar á heimsvísu. Þriðja plata sveitarinnar “Með hamri” sem kom út 2022 hefur vakið verðskuldað lof enda afar heildsteypt verk og sterkt skref í þróun sveitarinnar. Allar plötur sveitarinnar þykja raunar með bestu svartmálmsverkum samtímans. Misþyrming er hins vegar sveit sem nýtur sín best á sviði, tónleikar sveitarinnar eru ávallt gjörsamlega vægðarlausir og ekkert gefið eftir í ofsanum. Sveitin er í miklum vígahug og algjöru toppformi enda verið undanfarin ár fastagestir á stórum þungarokkshátíðum erlendis, og frekari landvinningar eru framundan í Kólumbíu og víðar. Vafurlogi er nýtt hugarfóstur Þóris Garðarssonar sem hefur átt langan feril í íslenskum svartmálmi sem meðlimur Sinmara og Svartadauða, en síðarnefnd sveit er af mörgum talin hafa komið íslenskum svartmálmi á kortið með frumraun sinni Flesh Cathedral sem hefur m.a. verið lýst sem hinu íslenska ígildi tímamótaverksins De Mysteriis dom Sathanas. Aðrir meðlimir sveitarinnar hafa einnig mikla reynslu úr sveitum á borð við Ophidian I, Helfró, Nyrst og Volcanova. Fyrsta plata Vafurloga “Í vökulli áþján” kemur út í haust á vegum hins virta franska útgefanda Norma Evangelium Diaboli sem einnig hefur sveitir á borð við Misþyrmingu og Deathspell Omega á sínum snærum. Í Vafurloga gætir áhrifa melódísks 90s svartmálms í meiri mæli en gengur og gerist í íslenskum svartmálmi. Forsmán hefur undanfarin ár getið sér gott orð innanlands sem kraftmikil tónleikasveit og komið fram á öllum helstu þungarokkshátíðum landsins á borð við Ascension, Norðanpaunk og Eistnaflug. Stuttskífan “Dönsum í logans ljóma” kom út árið 2021 á vegum þýska útgefandans Ván Records og sýndi fram á þroskaðar laga- og textasmíðar hjá þessari ungu sveit, enda meðlimirnir lærðir tónlistarmenn og afar virkir í hinum ýmsu hljómsveitum af ólíkum stefnum. Fyrsta plata Forsmánar er í burðarliðnum, og verður flutt útgefið efni í bland við efni af komandi plötu. Hin unga og upprennandi sveit Vampíra var sigurvegari Músíktilrauna 2024, fyrsta svartmálmssveitin til að ná því afreki, en þar að auki var gítarleikari sveitarinnar Þórsteinn Léó Gunnarsson valinn gítarleikari keppninnar. Sveitin hlaut mikið lof fyrir metnaðarfulla og dramatíska sviðsframkomu. Í kjölfar sigursins hefur sveitin spilað á fjölda tónleika í Reykjavík og víðar og stefnir á upptökur á sinni fyrstu plötu. Vampíra eru fulltrúar hinnar nýjustu kynslóðar íslensks svartmálms. 18 ára aldurstakmark er á tónleikana.

64
28:04

Næst í spilun: Addi

Vinsælt í flokknum Addi