Lífið

„Það eru komnir þrír mánuðir síðan pabbi minn sá fram á það að geta ekki lifað lengur“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Karlotta og faðir hennar, Sigurður Arnar Jónsson áttu einstakt samband og það styrktist að hennar sögn mikið eftir að hún komst á fullorðnisár.
Karlotta og faðir hennar, Sigurður Arnar Jónsson áttu einstakt samband og það styrktist að hennar sögn mikið eftir að hún komst á fullorðnisár. Samsett

„Ég er alls ekki týpan sem er mikið að opna sig á netinu. Þetta var erfitt og óþægilegt. En ég vildi gera þetta, fyrir pabba,“ segir tónlistarkonan Karlotta Sigurðardóttir en á dögunum gaf hún sitt fyrsta lag á íslensku sem ber heitið Hringekja. Lagið hefur afar sérstaka merkingu fyrir Karlottu vegna þess að það er seinasta lagið hennar sem faðir hennar, Sigurður Arnar Jónsson, fékk að heyra áður en hann féll fyrir eigin hendi, í apríl á þessu ári.

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.

Á dögunum birti Karlotta myndskeið á TikTok þar sem hún opnaði sig um fráfall föður síns og tengingu hans við lagið.

„Hann studdi mig alltaf mjög mikið í því sem ég gerði, og tónlist sérstaklega. Það var alltaf svona ákveðin viðurkenning í því að sýna honum það sem ég var að gera áður en ég gaf það út. Og ég bar alltaf mjög mikla virðingu fyrir því sem hann var að segja um það sem ég var að gera,“ segir Karlotta meðal annars í myndskeiðinu.

@karlotta.music Mjög skrítin tímamót 🥀🤍 #fyrirþig #islenskt ♬ original sound - KARLOTTA

Sjálfmenntuð í tónlist

Karlotta er ættuð frá Borgarfirði en hefur búið víða um land. Hún á stóra fjölskyldu; einn albróður, tvær hálfsystur, einn hálfbróður og stjúpbróður.

„Ég hef sungið alveg frá því ég man eftir mér; fyrir mér er söngurinn eðlilegasti hlutur í heimi. Pabbi átti gítar, og hann spilaði og söng fyrir okkur systkinin. Hann var rosalega mikill tónlistarunnandi. Afi minn, Jón Arngrímsson, hefur líka gefið út plötur og verið í hljómsveitum. Ég byrjaði að læra á fiðlu þegar ég var sjö ára, en endist nú ekki lengi í því, mömmu minni til mikillar gleði. Ég byrjaði síðan að læra á píanó þegar ég var átta ára og tók seinna eina önn í söngnámi.

En ég hef að mestu leyti menntað mig sjálf í tónlistinni; fiktað og prófað mig áfram. Mér finnst langbest að læra þannig. Þannig lærði ég til dæmis á gítar á sínum tíma, ég var tólf eða þrettán ára og var heima hjá pabba á Egilsstöðum og mér leiddist. Hann rétti mér gítar og hljómabækur og ég byrjaði að fikta. Þannig lærði ég á gítar.“

https://youtu.be/fKSefjdsBsY?si=fl1ZIDO8VPlkYQHH

18 ára gömul mætti Karlotta í áheyrnarprufur fyrir The Voice og heillaði dómnefndina upp úr skónum með flutningi sínum á One and Only með Adele. Þar með var ekki aftur snúið, og tæpu ári síðar lenti hún í þriðja sæti í undankeppni Eurovision, þar sem hún söng lagið  „Eye of the Storm.“

https://youtu.be/EKnCO7Rnt0U?si=maXKIGhk7mbc-v6b

Að loknum menntaskóla lá leið Karlottu út í heim og hún hefur verið á stöðugu flakki undanfarin sjö ár. Hún byrjaði á að fara ein í heimreisu, sem hætti í raun aldrei.

Hún lærði að verða einkaþjálfari á sínum tíma.

„Ég vann sem þjálfari hjá fyrirtæki sem sendi mig til landa eins og Spánar, Balí og Sri Lanka, og svo bauð ég líka upp á fjarþjálfun fyrir einstaklinga. Ég var semsagt að ferðast um heiminn og þjálfa í mjög langan tíma. Það var aldrei beinlínis ástríða hjá mér að vera einkaþjálfari en mig langaði til að víkka sjóndeildarhringinn og skoða heiminn og þetta gaf mér tækifæri til þess.“

Karlotta og faðir hennar voru einstaklega náin.Aðsend

Tónlistin var sameiginlegt áhugamál

Karlotta og faðir hennar áttu einstakt samband, og það styrktist að hennar sögn mikið eftir að hún komst á fullorðnisár.

„Ég var auðvitað alltaf einhvers staðar í útlöndum en við áttum ótrúlega mörg og löng símtöl þar sem við ræddum um allt á milli himins og jarðar. Pabbi var lengi búinn að glíma við andleg veikindi, bæði kvíða og þunglyndi, en seinustu tvö árin varð það sífellt alvarlegra. Þegar ég skoða núna myndir sem voru teknar af honum á þessum tíma þá sé ég það svo greinilega að honum líður mjög illa. Þegar hann var farinn að verða alvarlega veikur þá opnaði hann sig um það við mig, hann talaði mjög opinskátt um það. Það má eiginlega segja að það hafi gert sambandið okkar enn sterkara.

Hann vann alltaf rosalega mikið, ég man alltaf eftir honum heima þegar ég var lítil, hann í tölvunni að vinna. Líðanin hans versnaði mikið eftir að hann seldi fyrirtækið sitt; allt í einu hafði hann allan þennan frítíma og var ekki lengur með vinnuna til að dreifa huganum og flýja sársaukann. 

Ég vissi að pabba leið ekki vel. Og ég vissi líka að honum langaði svo mikið til að líða betur. Og hann reyndi svo sannarlega eins og hann gat að finna leiðir til þess. Hann prófaði allskonar leiðir, bæði hefðbundnar og óhefðbundnar. Hann var alltaf að leita að lausn. 

Fyrir mann sem var kominn á þennan stað í lífinu þá er eiginlega alveg magnað hvað hann reyndi mikið til að bjarga sjálfum sér, í stað þess að liggja bara í rúminu og gera ekki neitt.“

Faðir Karlottu var menntaður viðskiptafræðingur, en hafði mikið yndi af tónlist. Tónlistin var þeirra sameiginlega áhugamál.

„Pabbi sagði mér einu sinni að alltaf þegar honum liði ill þá hlustaði hann á lögin mín.“

Karlotta er spennt fyrir framtíðinni og ætlar sér stóra hluti í tónlistinni.Aðsend

Lagið snerti taug

Á seinasta ári fór Karlotta síðan að láta aftur til sín taka á tónlistarsviðinu. Hún sendi frá sér EP-plötuna Headroom og eitt af lögunum á henni „Freefalling“ fékk nokkra spilun og var á vinsældalista Rásar 2 um sumarið. Hún kom einnig fram á á tónlistarhátíðinni Bræðslunni á Borgarfirði. Í júlí síðastliðnum gaf hún síðan í fyrsta sinn út lag á íslensku. Það ber heitið Hringekja.

Eins og í öðrum lögum Karlottu er textinn einlægur og persónulegur. Lagið fjallar um tómarúmið sem verður til þegar sambönd eru að líða undir lok en eru þó ekki alveg búin. Einstaklingar festast í mynstrum sem eru alveg hætt að þjóna tilgangi en geta ekki slitið sig lausa.

„Ég leyfði pabba að hlusta á lagið, stuttu áður en hann dó. Þegar hann var búinn að hlusta á lagið varð hann skyndilega þögull og sagði ekki neitt. Hann var einhvern veginn öðruvísi en hann var venjulega. Ég vissi þá að ég hafði hitt á einhvern streng hjá honum.“

Faðir Karlottu hefði orðið 52 ára á þessu ári, ef hann hefði lifað. Hann lést þann 17.apríl síðastliðinn.

„Ég get ekki sagt að þetta hafi komið mér á óvart. Ég man þegar ég fékk fréttirnar af því að pabbi væri dáinn. Ég var úti í Tælandi og síminn hringdi þegar klukkan var sjö að morgni á íslenskum tíma. Um leið og ég sá að þetta var bróðir minn sem var að reyna að ná í mig þá bara vissi ég þetta, ég vissi strax hvað hefði gerst.

En áfallið var auðvitað svakalegt. Fyrstu dagana var ég ofboðslega reið. Svo komu augnablik þar sem maður var stöðugt að fara yfir það í huganum hvað maður hefði getað sagt eða gert öðruvísi, hvort maður hefði getað komið í veg fyrir þetta einhvern veginn. Ég grét á hverjum degi í margar vikur. Þurfti svo að fara í vinnuna inn á milli, þar sem ég var að tala við fólk og halda andlitinu, en maður var alltaf með þennan sársauka inni í sér.

Ég held að það sé ofboðslega nauðsynlegt í þessum aðstæðum að leyfa sér að fara í gegnum allar tilfinningarnar sem koma upp. Þetta er svo mikill tilfinningalegur rússíbani sem maður fer í gegnum og það má ekki loka á neitt. Leyfa sér að gráta ef maður þarf það, í stað þess að láta það festast í líkamanum. Og sömuleiðis leyfa sér að hlæja ef það er eitthvað tilefni til þess. Það er í lagi að hlæja og hafa gaman líka.“

Ótrúleg viðbrögð

Þann 17. júlí síðastliðinn, þegar þrír mánuðir voru liðnir frá andláti föður hennar, birti Karlotta einlægt myndskeið á Tiktok. Þetta var sama dag og lagið Hringekjan kom út.

Í myndskeiðinu tók Karlotta fram að lagið Hringekja hefði verið seinasta lagið hennar sem pabbi hennar heyrði áður en hann lést.

„Það eru komnir þrír mánuðir síðan pabbi minn sá fram á það að geta ekki lifað lengur,“ segir Karlotta meðal annars í myndskeiðinu.

Áður en hún vissi af voru komin rúmlega 60 þúsund áhorf á myndskeiðið. Hún kveðst hafa fengið fjölmörg skilaboð í kjölfarið, frá fólki sem þakkaði henni fyrir að opna sig um reynslu sína.

„Ég bjóst satt að segja aldrei við þessum viðbrögðum. En þetta hreyfði greinilega eitthvað við fólki. Ég sat bara með símann í hendinni og hugsaði með mér hvað væri eiginlega að gerast. Mér fannst ég búin að vera að berskjalda mig frammi fyrir alþjóð! Mér finnst eiginlega erfiðara að horfa á þetta núna í dag þegar það er smá tími liðinn og maður er kominn með smá fjarlægð á hlutina. Ég var í einhverju móki þarna.“

Undanfarnir mánuðir hafa tekið virkilega á Karlottu og hennar nánustu. En lífið heldur engu að síður áfram. Karlotta flutti nýverið til Berlínar og hyggst dvelja þar næstu þrjú árin og ljúka námi í lagasmíðum. Hún er að uppfylla langþráðan draum. Hún er spennt fyrir framtíðinni og ætlar sér stóra hluti í tónlistinni.

„Það var pabbi sem ýtti mér út í að fara í nám á sínum tíma. Við höfðum rætt þetta mikið og hann var boðinn og búinn til að hjálpa mér. Svona áfall eins og þetta, það setur lífið í nýtt samhengi. Þú gerir þér betur grein fyrir því að tíminn er dýrmætur og hvað það er mikilvægt að nýta hann vel.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×