Fótbolti

Stórliðin með sigra á Ítalíu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Milan fagna góðum sigri í dag.
Leikmenn Milan fagna góðum sigri í dag. Vísir/Getty

AC Milan og Roma unnu bæði sigra í leikjum sínum í ítölsku deildinni í dag. AC Milan er því áfram í 2. sæti deildarinnar en Inter getur bætt við forskot sitt á toppnum með sigri gegn Napoli í kvöld.

AC Milan var í heimsókn hjá Verona í dag og það var Theo Hernandez sem skoraði fyrsta mark leiksins þegar hann kom Milan í forystuna á 44. mínútur leiksins.

Bandaríkjamaðurinn Christian Pulisic kom Milan svo í 2-0 í upphafi síðari hálfleiks en Tijjani Noslin minnkaði muninn fyrir heimaliðið á 64. mínútu og leikurinn galopinn.

Á 79. mínútu var það hins vegar Samuel Chukwueze sem innsiglaði sigur Milan með góðu marki og tryggði þrjú stig. Milan er nú sjö stigum á eftir Inter sem er í toppsætinu sjö stigum á undan. Inter á leik í kvöld gegn Napoli og getur náð tíu stiga forskoti á nýjan leik.

Roma tók á móti Sassuolo á heimavelli sínum og þar var aðeins eitt mark skorað. Það skoraði Lorenzo Pellegrini í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Leikurinn var bragðdaufur en sigurinn heldur Roma í seilingarfjarlægð við efstu fjögur sætin sem tryggja þátttöku í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Þá áttu lið Fiorentina og Atalanta að eigast við í dag en leiknum var frestað með skömmum fyrirvara eftir að framkvæmdastjóri Fiorentina veiktist skyndilega rétt fyrir leik. Einhverjir leikmenn liðsins voru viðstaddir þegar Barone veiktist og var tekin sú ákvörðun að fresta leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×