Fótbolti

Á­rituð treyja Alberts boðin upp á Ebay til styrktar vinaliði Genoa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson fagnar einu af níu deildarmörkum sínum á tímabilinu.
Albert Guðmundsson fagnar einu af níu deildarmörkum sínum á tímabilinu. Getty/Francesco Pecoraro

Áhugasamir geta nú eignast áritaða Genoa treyju íslenska framherjans Alberts Guðmundssonar og um leið styrkt gott málefni.

Genoa segir frá því á miðlum sínum að félagið hafi fengið leikmenn sína til að árita keppnistreyjur sínar frá því í leiknum á móti Empoli á dögunum.

Albert með treyjuna.@genoacfc

Innkoman úr sölunni á treyjunum fer að öllu leyti til styrktar vinaliði félagsins sem heitir „CSS Silent Genova“ og er ítalskur meistari heyrnarlausra. Liðið er á leið í alþjóðakeppni í apríl og fær þarna góða aðstoð frá Alberti og félögum.

Albert hefur verið stjarna Genoa í vetur með 9 mörkum og 2 stoðsendingum í 21 leik og það má búast við því að margir vilji eignast treyjuna hans.

Genoa sagði frá uppboðinu á samfélagsmiðlum sínum og birti mynd af Alberti með árituðu treyjuna.

Treyjan er boðin upp á Ebay vefnum og áhugasamir geta nálgast hana hér.

Í morgun voru komin 32 boð í treyjuna og það hæsta var upp á 505 evrur eða 75 þúsund íslenskar krónur.

Uppboðið í treyjuna hans Alberts endar eftir rúma sex daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×