Fótbolti

Alexandra á­fram eftir vító gegn Inter

Sindri Sverrisson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir komst undanúrslit bikarsins með Fiorentina.
Alexandra Jóhannsdóttir komst undanúrslit bikarsins með Fiorentina. Getty/Marco Luzzani

Alexandra Jóhannsdóttir og stöllur hennar í Fiorentina eru komnar áfram í undanúrslit ítalska bikarsins í fótbolta eftir maraþoneinvígi við Inter.

Um tveggja leikja einvígi var að ræða en úrslitin réðust ekki fyrr en eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni í dag. Fyrri leiknum hafði lokið með 2-2 jafntefli og eftir níutíu mínútna leik í dag var staðan 0-0, svo einvígið var jafnt og því þurfti að framlengja.

Ítalska landsliðskonan Michela Ambiaghi kom Inter svo yfir í fyrri hálfleik framlengingarinnar en sænska landsliðskonan Pauline Hammarlund náði að jafna metin í seinni hálfleiknum, tíu mínútum fyrir lok framlengingar.

Alexandra hafði komið inn á sem varamaður á 72. mínútu hjá Fiorentina en hún var ekki á meðal þeirra sem tóku spyrnu í vítaspyrnukeppninni. Þar reyndust taugar Fiorentina-kvenna sterkari en þær skoruðu úr fyrstu fjórum spyrnum sínum á meðan að tvær af fyrstu þremur spyrnum Inter fóru forgörðum.

Þar með tryggði Fiorentina sér sigur og varð fyrsta liðið inn í undanúrslitin. AC Milan bætist alveg örugglega við síðar í dag, og Juventus með Söru Björk Gunnarsdóttur innanborðs er 4-0 yfir í einvígi sínu við Sampdoria fyrir seinni leikinn á morgun. Þá ráðast einnig úrslitin í einvígi Napoli og Roma þar sem Napoli er með 2-0 forskot eftir fyrri leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×