Fótbolti

Meistararnir töpuðu enn einu sinni stigum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Walter Mazzarri, þjálfari Napoli, nældi sér í beint rautt spjald í leiknum.
Walter Mazzarri, þjálfari Napoli, nældi sér í beint rautt spjald í leiknum. Vísir/Getty

Ítalíumeistarar Napoli þurftu að sætta sig við markalaust jafntefli er liðið tók á móti Monza í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Meistararnir höfðu tapað þremur af síðustu fjórum deildarleikjum sínum og sátu í sjöunda sæti fyrir leik kvöldsins. Sigur í kvöld hefði þó komið þeim í það minnsta upp í sjötta sæti og í seilingarfjarlægð frá Meistaradeildarsæti.

Heimamenn í Napoli voru sterkari aðilinn stærstan hluta leiksins og sköpuðu sér nokkur ákjósanleg færi til að koma boltanum í netið, en það gekk þó ekki eftir. Það voru hins vegar gestirnir í Monza sem fengu langhættulegasta færi leiksins þegar Mario Rui handlék knöttinn innan eigin vítateigs á 68. mínútu og vítaspyrna var dæmd.

Matteo Pessina fór á punktinn fyrir Monza, en Alex Meret las spyrnuna og varði vel í marki Napoli.

Þrátt fyrir markaleysið er ekki hægt að segja að leikurinn hafi verið rólegur. Alls fóru níu gul spjöld á loft og eitt rautt spjald þegar Walter Mazzarri, þjálfari Napoli, var sendur rakleiðis upp í stúku á 83. mínútu.

Þjálfaraleysið breytti þó litlu og hvorugu liðinu tókst að ræna sigrinum á lokamínútunum. Niðurstaðan varð markalaust jafntefli og Napoli situr því enn í sjöunda sæti deildarinnar, nú með 28 stig eftir 18 leiki, heilum 16 stigum á eftir toppliði Inter. Monza situr hins vegar í 11. sæti með 22 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×