Félagið hefur gefið nýtt verðbréfaapp sem er það fyrsta sem býður upp á frían aðgang að rauntímagögnum í Kauphöllinni fyrir alla íslenska fjárfesta, að sögn Hannesar.
Í dag eru upplýsingar um verðþróun og viðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni birt með 15 mínútna seinkun nema að fjárfestar greiði almennt sérstaklega fyrir að fá þær í rauntíma.
„Appið er sérstaklega sniðið að viðskiptum með hlutabréf og gefur notendum meiri upplýsingar af markaði en almennt eru veittar í gegnum netbankaöppin. Þannig hafa viðskiptavinir aðgang að tilboðsbókum og helstu viðskiptaupplýsingum um leið og kaup og sala á hlutabréfum á sér stað,“ útskýrir hann, og bætir við:
„Við vitum að framtíðin í verðbréfaviðskiptum er fólgin í sjálfvirkum lausnum og áhugi almennings á verðbréfamarkaðinum, sérstaklega hlutabréfum, hefur aukist mikið undanfarið,“ nefnir Hannes. Fjöldi einstaklinga á markaði hefur farið úr rúmlega átta þúsund í meira en 31 þúsund frá því um haustið 2020 þegar hlutafjárútboð Icelandair fór fram.
Við teljum að það skipti almenna fjárfesta miklu máli að geta þannig tekið ákvarðanir um kaup og sölu hlutabréfa á jafnræðisgrunni með öllum öðrum fjárfestum í Kauphöllinni.
Með slíkum sjálfvirkum lausnum, að sögn Hannesar, verður enginn þörf fyrir viðskiptavini að setja sig í samband við miðlara eða aðra milliliði heldur hafi þeir sjálfir full yfirráð yfir pöntunum sínum um kaup eða sölu á hlutabréfum.
ACRO er á meðal helstu verðbréfafyrirtækja landsins og umsvif þess hafa aukist verulega á síðustu misserum og árum. Á árinu 2021 nam velta félagsins tæplega 900 milljónum, sem var um 50 prósent aukning á milli ára, og hagnaður þess var nálægt 350 milljónum. Í júní árið 2021 veitti Fjármálaeftirlit Seðlabankans fyrirtækinu starfsheimild fyrir eignastýringarþjónustu og skömmu síðar var nafni þess breytt í ACRO verðbréf.
Hlutdeild ACRO í miðlun hlutabréfa í Kauphöllinni hefur farið vaxandi og í fyrra var félagið með þriðju mestu hlutdeildina í viðskiptum með hlutabréf. Arion banki og Íslandsbanki voru hins vegar með mestu hlutdeildina í miðlun hlutabréfa.