Innlent

Bakslag í baráttunni og framkvæmdin ómöguleg: „Þetta er bara stórkostlega galin hugmynd“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.

Þingflokksformaður Pírata segir hugmyndir um að afnema refsingu aðeins fyrir ákveðinn hóp stórgallaðar og spyr hvort halda eigi fíklaskrá ríkisins. Sérfræðingur í skaðaminnkun segir tillöguna bakslag í baráttunni og telur hana á skjön við lög.

Heilbrigðisráðherra skipaði fyrr á árinu starfshóp um afglæpavæðingu neysluskammta eftir að frumvarp Svandísar Svavarsdóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, náði ekki í gegn á þinginu og í gær var tilkynnt um áform um afnám refsingar, þó aðeins fyrir veikasta hóp samfélagsins í tilteknum tilvikum og með tiltekið magn fíkniefna.

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, er meðal þeirra sem hafa lagt fram frumvarp um afglæpavæðingu en hún gagnrýnir tillögu ráðherrans, sem hún telur jaðarsetja fólk enn frekar.

„Núverandi stefna er skaðleg. Við vitum þetta, það hefur sýnt sig, við höfum áralanga reynslu af núverandi stefnu. Samt á einhvern veginn bara að afnema þessa skaðlegu stefnu fyrir hluta vímuefnanotenda,“ segir Halldóra.

Slík nálgun jaðarsetji fólk aðeins frekar og ýti undir þeirra fíknivanda. Þá sé það með öllu óljóst hvernig flokka eigi veikustu einstaklingana.

„Ég skil ekki alveg hvernig það á að framkvæma þetta. Eiga að vera einhvers konar fíklaskrár ríkisins? Á fólk að fá einhvers konar skírteini eða vottorð sem það þarf að sýna um að það sé nægilega veikt til þess að ekki þurfi að refsa þeim? Þetta er bara stórkostlega galin hugmynd,“ segir Halldóra.

Það virðist þó ekki vera á dagskrá núverandi ríkisstjórnar en Halldóra segist jafnvel munu leggja fram eigið frumvarp.

„Ef að niðurstaðan og afurðin er í samræmi við það sem er verið að tala um núna, að séu áform heilbrigðisráðherra í þessum málaflokki þá held ég að það sé klárlega þörf á því að leggja fram alvöru frumvarp um að afglæpavæða fyrir alla,“ segir Halldóra.

Ekki hægt að ákveða hverjir eiga að búa við hvaða lagalegu réttindi

Svala Jóhannesdóttir, sérfræðingur í skaðaminnkun hjá Matthildi - samtökum um skaðaminnkun, tekur í sama streng og Halldóra og segir að lengi hafi verið barist fyrir afglæpavæðingu.

Tillagan hafi komið þeim sem hafi starfað með vímuefnanotendum um árabil verulega á óvart og sé mikið bakslag. Mikil vinna hafi farið fram við að fræða stjórnmálamenn og almenning um mikilvægi afglæpavæðingar.

„Rannsóknir sýna að það eykur öryggi þeirra og dregur úr dauðsföllum og það eykur líkur á því að fólk leiti sér heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu, og við viljum hámarka öryggi og að fólk verði fyrir sem minnstum skaða,“ segir Svala.

Hvað tillögu ráðherrans varðar telur Svala ljóst að hún sé á skjön við lög þar sem ákveða þurfi hverjir séu veikastir eða mest jaðarsettir. 

Svala Jóhannesdóttir, sérfræðingur í skaðaminnkun hjá Matthildi - samtökum um skaðaminnkun. 

„Ef maður skoðar bara lög út frá friðhelgi einkalífsins, persónuvernd og jafnræðislaga, þá er þetta í rauninni á skjön við lagaleg réttindi fólks,“ segir hún og bætir við að sama megi segja um mannréttindi. 

„Við getum ekki verið að taka ákveðinn hóp út og segja að hann á að búa við þessi lagalegu réttindi og mannréttindi, en allir hinir eiga ekki rétt á því.“

Meirihluti þjóðarinnar virðist vera sammála skaðaminnkunarsérfræðingum en samkvæmt könnun prósents sem var framkvæmd í mars er rúmlega helmingur landsmanna hlynntur afglæpavæðingu.

„Stjórnvöld og heilbrigðisráðherra þurfa að taka skýra afstöðu með því að við ætlum að innleiða fulla afglæpavæðingu á neysluskömmtum sem eru til einkanotkunar fyrir alla vímuefnanotendur í landinu,“ segir Svala.


Tengdar fréttir

Vill af­nema refsingu fyrir veikasta hópinn

Heilbrigðisráðuneytið hefur sett tillögu að lagasetningu í samráðsgátt sem lýtur að afnámi refsingar fyrir veikasta hóp fíkla í tilteknum tilvikum með tiltekið magn og efni ávana- og fíkniefna.

Rúm­lega helmingur hlynntur af­glæpa­væðingu vörslu neyslu­skammta

Rúmlega helmingur Íslendinga er hlynntur afglæpavæðingu vörslu neysluskammta fíkniefna á Íslandi. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar sem framkvæmd var af Prósent þar sem svarendur voru spurðir „Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur)(t) ert þú afglæpavæðingu á vörslu neysluskammta fíkniefna á Íslandi?“

Vill fara mjög varlega í að segja að fíkniefni séu lögleg

Fjármálaráðherra telur að fara þurfi mjög varlega í að segja að fíkniefni séu lögleg á Íslandi. Innviðaráðherra segir ekki ráðlegt að ráðast í afglæpavæðingu neysluskammta áður en önnur úrræði séu líka tilbúin.

Stefnir á að frumvarp um af­glæpa­væðingu verði á dag­skrá í haust

Heilbrigðisráðherra segir að frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta hafi verið sett á bið því að starfshópur sem fer fyrir málinu treystir sér ekki til að klára sín störf fyrir fyrsta apríl. Hann reiknar með að leggja fram betrumbætt frumvarp fyrir þingið í haust. Hann segist hlynntur refsileysi en að fíkniefni verði gerð upptæk finnist þau á fólki. 

„Langar mest að gráta“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra er búinn að setja fyrirhugað frumvarp sitt um afglæpavæðingu neysluskammta á salt. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sem barist hefur fyrir lagabreytingu í þá átt, á vart orð til að lýsa vonbrigðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×