Fótbolti

De Jong í æfinga­hóp sem fór til Miami | Fimm leik­menn á­samt knatt­spyrnu­stjóranum Xavi eftir í Barcelona

Atli Arason skrifar
Frenkie de Jong gæti leikið með Barcelona á næsta tímabili þrátt fyrir sögusagnir um annað.
Frenkie de Jong gæti leikið með Barcelona á næsta tímabili þrátt fyrir sögusagnir um annað. Getty Images

Frenkie de Jong, leikmaður Barcelona, fór með liðinu á undirbúningstímabil þeirra í Bandaríkjunum. Telja einhverjir þetta vera vísbendingu að hann muni þá ekki yfirgefa Barcelona fyrir Manchester United eftir allt saman. Knattspyrnustjórinn Xavi varð hins vegar eftir í Katalóníu.

Xavi fær ekki að fara til Bandaríkjana.EPA-EFE/Alejandro Garcia

Xavi má ekki ferðast til Bandaríkjanna. Var hann mættur með liðinu á flugvöllinn í Barcelona en fékk ekki að fara um borð því hann fær ekki landvistarleyfi í Bandaríkjunum vegna þess hve ítrekað hann hefur heimsótt Íran síðustu ár. 

Xavi var bæði leikmaður og knattspyrnustjóri Al Sadd í Katar árin 2015-2021 og ferðaðist oft með liðinu til nágrannana í Íran til að spila knattspyrnuleiki.

Samskipti Írana og Bandaríkjamanna hafa verið stirð allt frá árinu 1979. Bandarískum ríkisborgurum er ekki ráðlagt að ferðast til Íran og allir þeir sem hafa dvalið í Íran og hafa ekki bandarískt vegabréf mega ekki ferðast til Bandaríkjanna án þess að fá til þess sérstakt leyfi. Því verður Xavi að verða eftir heima á Spáni.

Frenkie de Jong í hóp en ekki þeir fimm leikmenn sem eru á leið frá Barcelona

Helsta skotmark Manchester United í sumar, hinn hollenski Frenkie de Jong er hins vegar í leikmannahópnum. 

Joan Laporta, forseti Barcelona, hafði áður gefið út þegar félagið var að kynna Raphinha til leiks að Barcelona þyrfti ekki að selja Hollendinginn til að leysa fjárhagskrísu sína. Framtíð Frenkie de Jong væri í höndum knattspyrnustjórans Xavi, ef Xavi vildi hafa þann hollenska í hóp liðsins fyrir komandi tímabil.

Fimm leikmenn voru hins vegar ekki valdir í æfingarhópinn sem gefur til kynna að þeir séu á leiðinni í burtu frá Barcelona. Það eru þeir Martin Braithwaite, Samuel Umtiti, Neto, Riqui Puig og Oscar Mingueza.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×