Fótbolti

Spænsku meistararnir felldu botnliðið með öruggum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vinicius Jr. skoraði þrennu í kvöld.
Vinicius Jr. skoraði þrennu í kvöld. David S. Bustamante/Soccrates/Getty Images

Nýkrýndir Spánarmeistarar Real Madrid unnu afar sannfærandi 6-0 sigur er liðið tók á móti botnliði Levante í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Ferland Mendy kom Madrídingum yfir strax á 13. mínútu leiksins áður en markamaskínan Karim Benzema tvöfaldaði forystuna sex mínútum síðar.

Rodrygo gerði svo þriðja mark meistaranna eftir rúmlega hálftíma leik, en það var Vinicius Jr. sem sá til þess að staðan var 4-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Vinicius Jr. bætti öðru marki sínu og fimmta marki Madrídinga við þegar rúmar tuttugu mínútur lifðu leiks, en hann fullkomnaði svo þrennu sína stuttu fyrir leikslok og gulltryggði 6-0 sigur Madrídinga.

Real Madrid er nú með 84 stig á toppi deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir og hafa nú þegar tryggt sér spænska deildarmeistaratitilinn. Levante átti enn tölfræðilegan möguleika á að halda sæti sínu í deildinni, en tapið í kvöld þýðir að liðið er nú fallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×