Innherji

Seðla­banka­stjóri óttast mögu­lega endur­komu verð­tryggingar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir sagði að einn mikilvægasti áfangi síðustu tveggja ára væri tilfærsla heimila yfir í óverðtryggð lán.
Ásgeir sagði að einn mikilvægasti áfangi síðustu tveggja ára væri tilfærsla heimila yfir í óverðtryggð lán. Vísir/Vilhelm

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur áhyggjur af því að hækkandi vextir og nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar geti leitt til þess að heimilin færi sig aftur yfir í verðtryggð lán og að lífeyrissjóðir verði á ný atkvæðamiklir á lánamarkaði. Þetta kom fram í máli seðlabankastjóra á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær.

Ásgeir var spurðu hvort nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar í hlutfalli við ráðstöfunartekjur myndu leiða heimilin aftur í átt að verðtryggðum lánum sem bera almennt lægri greiðslubyrði á fyrri hluta lánstímans. Samkvæmt reglunum, sem tóku gildi, 1. desember, er hámarkið 35 prósent fyrir almennar lánveitingar og 40 prósent fyrir kaupendur fyrstu fasteignar.

„Það er alls ekki markmið þessara reglna að ýta fólki út í verðtryggð lán og við höfum áhyggjur af því. Eins og til dæmis því að lífeyrissjóðir myndu koma aftur inn á markaðinn með verðtryggð lán þegar við værum í rauninni að reyna að hafa hemil á þeim,“ sagði Ásgeir og bætti við að lífeyrissjóðir hefðu yfirburði í því að fjármagna verðtryggð lán sökum þess að skuldir þeirra eru verðtryggðar.

„Það er engin launung á því að ég hefði helst viljað að lífeyrissjóðirnir væru ekki beinir þátttakendur á lánamarkaðinum eins og þeir eru í dag. Ef þetta er að hafa þau áhrif kemur vel til greina að skoða reglurnar.“

Það er engin launung á því að ég hefði helst viljað að lífeyrissjóðirnir væru ekki beinir þátttakendur á lánamarkaðinum eins og þeir eru í dag.

Þá sagði seðlabankastjóri að einn mikilvægasti áfangi síðustu tveggja ára væri tilfærsla heimila úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð lán. „Það sem við höfum séð er nýtt fasteignalánakerfi birtast sem er byggt á breytilegum nafnvöxtum að miklu leyti. Ég tel að þetta sé miklu hollara kerfi heldur en verðtryggingin. Það er mikilvægt að við náum að halda utan um þetta kerfi.“

Útlánatölur bankanna sýna að heimilin greiddu upp óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum fyrir meira en 1.230 milljónir króna í síðasta mánuði. Það hefur ekki gerst frá því í árslok 2016 að uppgreiðslur á slíkum íbúðalánum séu meiri en sem nemur nýjum lánveitingum innan eins mánaðar.

Á sama tíma og ásókn heimilanna í óverðtryggð lán á breytilegum kjörum er hverfandi þá hafa þau í vaxandi mælið verið að taka slík lán á föstum vöxtum. Í febrúar námu lán bankanna með veði í íbúð samtals tæplega 13 milljörðum króna og jukust um nærri 50 prósent frá fyrri mánuði.

Frá því í mars 2016 og þar til kórónuveirufaraldurinn skall á hér á landi í lok mars 2020 voru lífeyrissjóðirnir mjög umsvifamiklir í veitingu nýrra húsnæðislána og með álíka hlutdeild í veitingu nýrra lána og bankarnir.

Hrein ný útlán lífeyrissjóðanna á því þriggja ára tímabili námu samtals 386 milljörðum króna. Má segja að í hverjum mánuði hafi hrein útlán frá lífeyrissjóðunum til íbúðakaupenda numið um það bil 5-10 milljörðum króna.

Á örskömmum tíma breyttist umhverfið. Frá því í júní 2020 og til október 2021 voru hrein ný útlán sjóðanna, þ.e. ný útlán að frádregnum uppgreiðslum, neikvæð í hverjum einasta mánuði. En eftir samfelldar uppgreiðslur í nær eitt og hálft ár hafa hrein ný útlán verið jákvæð um 1,5 til 2 milljarða frá því í nóvember.

Áður hefur komið fram í máli stjórnenda Seðlabankans að ekki sé heppilegt að lífeyrissjóðir starfi á sama sviði og bankar án þess að lúta sömu kröfum. Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, sagði í samtali við Innherja í lok síðasta árs að regluverkið í kringum lífeyrissjóði væri of einfalt. „Við teljum að gera þurfi meiri kröfur til og setja strangari varúðarreglur um lífeyrissjóði,“ sagði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×