Fótbolti

Tvö félög eftir í kapphlaupinu um Håland

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erling Håland söðlar að öllum líkindum um í sumar eftir tvö ár hjá Borussia Dortmund.
Erling Håland söðlar að öllum líkindum um í sumar eftir tvö ár hjá Borussia Dortmund. getty/Mario Hommes

Aðeins tvö félög ku vera eftir í kapphlaupinum um norska framherjann Erling Håland hjá Borussia Dortmund.

The Athletic greinir frá því að Håland muni velja á milli Manchester City og Real Madrid á næstu vikum.

Håland er með ákvæði í samningi sínum sem gerir félögum kleift að kaupa hann fyrir 64 milljónir punda í sumar sem er hálfgert tombóluverð fyrir einn eftirsóttasta, ef ekki eftirsóttasta, leikman heims.

Real Madrid gæti orðið stórtækt á félagaskiptamarkaðnum í sumar en allar líkur eru á því að Kylian Mbappé komi til félgasins á frjálsri sölu frá Paris Saint-Germain. Real Madrid gæti því hafið næsta tímabil með tvo bestu ungu framherja heims innan sinna raða.

City er í framherjaleit en félaginu tókst ekki að kaupa Harry Kane síðasta sumar. Þar á bæ vona menn að sú staðreynd að faðir Hålands, Alf-Inge, spilaði með City gæti spilað inn í ákvörðun stráksins.

Hinn 21 árs Håland hefur skorað áttatíu mörk í 79 leikjum síðan hann kom til Dortmund frá RB Salzburg fyrir tveimur árum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×