SaltPay náði nýlega samkomulagi við fjármálaeftirlitið um að ljúka með sátt máli vegna brota félagsins á ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Með samkomulaginu samþykkti félagið að greiða sekt að fjárhæð 44,3 milljónir króna til ríkissjóðs og framkvæma fullnægjandi úrbætur innan tilgreindra tímamarka í samræmi við kröfur fjármálaeftirlitsins.
Ákvörðun sektarfjárhæðar í málinu, að því er kemur fram í samkomulaginu sem fjármálaeftirlitið hefur nú birt, var byggð á því að athugun eftirlitsins leiddi í ljós víðtæka veikleika í aðgerðum málsaðila gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
„Um var að ræða brot gegn grundvallarþáttum í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Að mati Fjármálaeftirlitsins eru brotin ekki tilfallandi heldur alvarleg og kerfisbundin,“ segir í samkomulaginu.
Að mati Fjármálaeftirlitsins eru brotin ekki tilfallandi heldur alvarleg og kerfisbundin
Fjármálaeftirlitið lýsir brotunum þannig að þegar horft væri heildstætt á efnislegt innnihald áhættumats félagsins hefði ekki verið um að ræða greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og að áhættumat, stefna, stýringar og verkferlar hefðu ekki verið uppfærðir í samræmi við tilefni.
Þá kemur fram að aðferðarfræði við áhættuflokkun viðskiptamanna hafi ekki tekið mið af áhættuþáttum tengdum peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og því hafi félagið ekki áhættuflokkað viðskiptamenn út frá hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Enn fremur kemur fram í samkomulaginu að framkvæmd félagsins á áreiðanleikakönnunum hafi verið ábótavant en í nokkrum tilfellum hafði ekki verið aflað upplýsinga um raunverulega eigendur og höfðu upplýsingarnar ekki verið sannreyndar.
Upp komu tilvik þar sem félagið gat ekki sýnt fram á að framkvæmdar hefðu verið áreiðanleikakannanir, viðhaft hefði verið reglubundið eftirlit og að uppruni fjármuna sem notaðir voru í viðskiptasambandinu hefði verið staðfestur.
Samkomulagið kveður jafnframt á um að félagið hafi ekki gripið til viðeigandi ráðstafana til að kanna uppruna auðs og fjármuna sem notaðir eru í samningssambandi og ekki viðhaft aukið reglubundið eftirlit með einstaklingum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
SaltPay hafði áður sent frá sér tilkynningu um samkomulagið þar sem fram kom að það tengdist í meginatriðum kerfum og ferlum voru til staðar áður en SaltPay keypti Borgun vorið 2020.
„FME hefur lagt til ákveðnar úrbætur, sem flestar tengjast atriðum sem eftirlitið hafði einnig vakið athygli á í athugunum sínum á árunum 2017 og 2018, áður en SaltPay kom til skjalanna,“ sagði í tilkynningu færsluhirðisins.
„SaltPay skuldbindur sig til að halda áfram að gera endurbætur á kerfum sínum og ferlum, í samvinnu við FME. Sú vinna verður leidd af nýjum íslenskum stjórnendum sem nú eru komnir að stjórn félagsins hér á landi og hafa metnað til að félagið verði leiðandi á þessu sviði til framtíðar.“