Fótbolti

Var drullusama þótt hann fengi lítið að spila hjá Barcelona því hann fékk svo vel borgað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alex Song þegar hann var kynntur sem leikmaður Barcelona.
Alex Song þegar hann var kynntur sem leikmaður Barcelona. epa/TONI ALBIR

Alex Song viðurkennir að hafa farið til Barcelona frá Arsenal peninganna vegna.

Eftir sjö ár hjá Arsenal keypti Barcelona Song á fimmtán milljónir punda 2012. Hann spilaði lítið fyrir Katalóníuliðið en var slétt sama um það þar sem hann fékk svo vel borgað.

„Þegar Barcelona bauð mér samning og ég sá hversu mikið ég myndi þéna þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Ég hugsaði að fjölskyldan mín ætti eftir að hafa það gott þegar ferli mínum lyki,“ sagði hinn kamerúnski Song í viðtali við landa sinn, körfuboltamanninn Pascal Siakam hjá Toronto Raptors í NBA, á Instagram.

„Íþróttastjóri Barcelona sagði að ég myndi ekki spila mikið en mér var drullusama því ég vissi að ég yrði milljónamæringur.“

Song var hjá Barcelona til 2016 en tvö síðustu tímabil sín hjá félaginu var hann lánaður til West Ham United. Í dag leikur hinn 34 ára Song með Arta/Solar 7 í Djibútí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×