Innlent

Dregur úr vilja til ferðalaga til Íslands

Heimir Már Pétursson skrifar
Bandaríkjamenn hafa verið um helmingur þeirra farþega sem komið hafa til landsins á þessu ári.
Bandaríkjamenn hafa verið um helmingur þeirra farþega sem komið hafa til landsins á þessu ári. Stöð 2/Egill

Dregið hefur úr áhuga á ferðalögum til Íslands eftir að allir farþegar voru skyldaðir í lok júlí til að framvísa neikvæðu PCR eða hraðprófi á brottfararstað, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki. Mest munar um Bandaríkjamenn í fjölgun farþega í sumar sem leið.

Fyrstu átta mánuði ársins hafa 445 þúsund farþegar komið til Íslands samanborið við 558 þúsund í fyrra og 1,8 milljónir fyrstu átta mánuðina 2019.

Hér sést hvað farþegafjöldinn var lítill fyrstu átta mánuði ársins í ár og fyrra í samanburði við árið 2019.Grafík/Helgi

Þegar samdrátturinn varð hvað mestur á Keflavíkurflugvelli fóru daglegar flughreyfingar frá niður í eina til þrjár. Í dag fara fimmtíu flugvélar frá flugvellinum og annar eins fjöldi lendir. Það er því greinilegt að ferðamennskan er að taka við sér.

Það var ys og þys á Keflavíkurflugvelli þegar flugvélarnar frá Bandaríkjunum komu inn snemma í morgun. Meðal farþega voru vinkonurnar Susan Campel frá Philadelphia og Sue Dugan frá Pittsburg sem höfðu beðið lengi eftir því að komast í ferðalög á ný.

„Ertu að grínast í mér,“ sagði Susan glöð í bragði. Þetta væri önnur ferð hennar á þessu ári og hún stefndi á þá þriðju í nóvember.

Susan Campel frá Philadelphia er lengst til hægri á þessari mynd og Sue Dugan frá Pittsburg er lengst til vinstri.Stöð 2/Egill

„Við þurftum að fresta ferð okkar til Íslands um eitt ár,“ segir Sue. Þær hefðu heyrt vel látið af landinu.

„Margir hafa sagt mér að ég yrði að sjá Ísland. Það væri fallegt og öðruvísi. Þannig að það hefur verið á forgangslista hjá mér,“ segir Sue Dugan.

Mikil bjartsýni ríkti um vöxt ferðaþjónustunnar árið 2019 þegar rúmlega 7,2 milljónir farþega fóru um Keflavíkurflugvöll. Síðan skall áfallið vegna kórónuveirufaraldursins á með vaxandi þunga í byrjun árs 2020.

Guðmundur Daði Rúnarsson framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia segir lokun Bandaríkjanna í fyrra vor hafa gert útslagið.

Guðmundur Daði Rúnarsson framkvæmdastjóri hjá Isavia segir að eftir að þess var krafist í lok júlí að allir farþegar til Íslands þyrftu að framvísa neikvæðu PCR eða hraðprófi á brottfararstað hafi dregið úr ferðavilja til Íslands.Stöð 2/Egill

„Þá náttúrlega hrundi umferðin hérna mjög hratt. Það var byrjað að hægja aðeins á í byrjun mars 2020 þegar covid faraldurinn var að byrja að herja á heiminn. En þegar lokanir gerðust um miðjan mánuðinn og svo þegar gripið var til lokana á okkar landamærum í lok mars varð umferðin nánast ekki að neinu mjög snögglega,“ segir Guðmundur Daði.

Hér sést hvernig farþegum fækkaði snögglega þegar komið var fram í mars 2020. Eftir að þeim fjölgaði lítillega í júní og júlí fækkaði þeim síðan mjög mikið á haustmánuðunum. Þeir heldust mjög fáir þar til þeim fór að fjölga aftur í júní á þessu ári (rauði liturinn).Grafík/Helgi

Hér sjáum við heildarfarþegafjöldann um Keflavík eftir mánuðum meðan allt lék í lyndi árið 2019 og svo stöðuna 2020 í samanburðinum. Farþegum fjölgaði duglega um tíma í fyrra sumar eftir að öllum aðgerðum var aflétt um mánaðamótin júní júlí. Síðan tók við annað samdráttarskeið eftir að gripið var til aðgerða á ný í september fram í júní á þessu ári.

Og Bandaríkin halda áfram að vera örlagavaldur því það eru aðallega farþegar frá þaðan sem eru helst að bjarga málum.

„Þeir eru búnir að vera um eða yfir fimmtíu prósent af ferðamönnum til Íslands. Þeir eru mjög góðir ferðamenn fyrir okkur. Þeir eru verðmætir. Það skiptir öllu máli fyrir flugvöllinn og flugfélögin að það sé opið hér fyrir bandaríkjamarkað enda hefur hann verið okkar mikilvægasti markaður í áratugi,“ segir Guðmundur Daði.

Ísland er eina ríkið innan Schengen og Evrópska efnahagssvæðisins sem krefst PCR- eða hraðprófa af öllum farþegum.

„Við vorum á góðri siglingu. En við sáum það strax og farið var að herða á landamærunum og gera ríkari kröfur þá minnkaði ferðaviljinn. Þannig að við höfum verið að sjá að það er farið að draga úr ferðaviljanum til Íslands á síðustu fjórum vikum. Og við teljum að það muni halda áfram inn í veturinn,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×