Fótbolti

24 dagar í EM: Fleiri skoruðu fyrir ís­lenska lands­liðið á EM 2016 en fyrir bæði liðin sem fóru í úr­slita­leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Sigurðsson fagnar marki sínu á móti Englandi á EM en hann var einn af sex markaskorurum íslenska liðsins á mótinu.
Ragnar Sigurðsson fagnar marki sínu á móti Englandi á EM en hann var einn af sex markaskorurum íslenska liðsins á mótinu. EPA/OLIVER WEIKEN

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Sex leikmenn skoruðu fyrir íslenska landsliðið á síðasta Evrópumóti.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sló eftirminnilega í gegn á sínu fyrsta stórmóti sem var EM í Frakklandi sumarið 2016.

Íslensku strákarnir komust fyrst taplausir í sextán liða úrslitin eftir sigur á Austurríki í lokaleik riðilsins og slógu síðan stórstjörnur Englendinga út úr sextán liða úrslitum eins og frægt varð.

EM ævintýrið endaði síðan með 5-2 tapi á móti gestgjöfum Frakka í átta liða úrslitum en Ísland átti eitt af átta bestu liðum mótsins.

Íslenska landsliðið komst ekki aðeins í átta liða úrslitin heldur skoraði liðið í öllum fimm leikjum sínum og samtals átta mörk.

Það voru aðeins fjórar þjóðir sem skoruðu fleiri mörk en íslenska landsliðið þar af léku tvær þeirra tveimur leikjum meira en íslensku strákarnir.

Frakkar skoruðu langmest eða þrettán mörk. Wales var með tíu mörk og bæði Belgía og Portúgal skoruðu aðeins einu marki meira en íslenska liðið.

Það sem vakti líka athygli var að sex leikmenn íslenska liðsins komust á blað í mótinu. Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu báðir tvö mörk en þeir Jón Daði Böðvarsson, Gylfi Sigurðsson, Ragnar Sigurðsson og Arnór Ingvi Traustason voru allir með eitt mark.

Fleiri leikmenn komust á blað hjá íslenska landsliðinu en hjá báðum liðunum sem komust í úrslitaleikinn.

Það voru nefnilega aðeins fjórir leikmenn skoruðu fyrir silfurlið Frakka og bara fimm leikmenn sem skoruðu fyrir Evrópumeistara Portúgals.

Antoine Griezmann (6 mörk), Olivier Giroud (3), Dimitri Payet (3) og Paul Pogba (1) skoruðu fyrir Frakka á Evrópumótinu en fyrir Portúgal skoruðu þeir Cristiano Ronaldo (3 mörk), Nani (3), Ricardo Quaresma (1), Renato Sanches (1) og Eder (1) sem skoraði sigurmarkið í úrslitaleiknum.

Sjö leikmenn skoruðu fyrir bæði Belgíu og Wales á mótinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×